- Auglýsing -
- Ýmir Örn Gíslason og félagar í Göppingen unnu góðan sigur á Hannover-Burgdorf á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær, 30:26. Ýmir Örn, sem er fyrirliði Göppingen, skoraði tvö mörk í leiknum. Göppingen situr í áttunda sæti af 18 liðum deildarinnar með sjö stig að loknum sjö leikjum.
- Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Liðinu hefur ekki vegna sem skildi það sem af er leiktíðar og situr í 15. sæti með fjögur stig eftir sjö viðureignir.
- Viggó Kristjánsson mætti til leiks á ný eftir meiðsli og átti afar góðan leik með HC Erlangen er liðið tapaði fyrir meisturum Füchse Berlin, 38:35, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Viggó skoraði sjö mörk í sjö tilraunum og átti þrjár stoðsendingar.
- Andri Már Rúnarsson, leikmaður Erlangen, skoraði ekki mark í þremur skotum. Hann átti eina stoðsendingu.
- Daninn Mathias Gidsel var markahæstur hjá Füchse Berlin með átta mörk auk fimm stoðsendinga. Berlínarliðið virðist vera að ná vopnum sínum eftir uppnám sem varð í herbúðum þess í síðasta mánuði er leiddu m.a. til uppsagnar þáverandi þjálfara og íþróttastjóra. Füchse Berlin er í 5. sæti með 10 stig eftir sjö leiki.
- Erlangen er í níunda sæti með sex stig að loknum sjö leikjum.
- Eftir góðan sigur á Göppingen í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar á miðvikudag steinlá SC DHfK Leipzig fyrir Flensburg á heimavelli í gær, 42:24. Blær Hinriksson skoraði eitt mark og gaf þrjár stoðsendingar í lið Leipzig sem er í næst neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með eitt stig eftir sjö leiki.
- Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -