-Auglýsing-

Molakaffi: Elín, Einar, Birgir, Óðinn, Donni

- Auglýsing -
  • Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir heldur áfram að blómstra með sænska liðinu IK Sävehof. Hún var markahæst í gær þegar Sävehof vann HK Aranäs, 40:32, í þriðju umferð sænsku úrvalsdeildarinnar. Sigurinn tryggði Sävehof áframhaldandi veru í efsta sæti deildarinnar með fullu húsi stiga.
  • Elín Klara skoraði átta mörk í 11 skotum og átti einnig eina stoðsendingu. Hún fékk flest framlagsstig leikmanna Sävehof í leiknum sem væntanlega þýðir að Elín Klara var besti leikmaður liðsins.
  • Einar Bragi Aðalsteinsson var næst markahæsti leikmaður IFK Kristianstad í sex marka sigri liðsins, 37:31, á Alingsås HK á útivelli. Einar Bragi skoraði sex mörk í 12 skotum. Samherji Einars Braga, Axel Månsson, fór mikinn og skoraði 13 mörk.
  • Með sigrinum tókst IFK Kristiansand að tylla sér á topp sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrsta sinn á leiktíðinni. Liðið er með 11 stig að loknum sex leikjum og er stigi ofar en Malmö. Hammarby getur jafnað IFK Kristianstad að stigum. Hammarby hefur níu stig og á leik til góða.
  • Birgir Steinn Jónsson skoraði ekki fyrir IK Sävehof í jafntefli við Önnereds á heimavelli, 32:32. Birgir Steinn átti fjögur markskot sem geiguðu. IK Sävehof er með sex stig í sjö leikjum í 5. sæti en aðeins tvö stig skilja að liðin í fimmta sæti og því 12.
  • Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur hjá Kadetten Schaffhausen í níu marka sigri á GC Amicitia Zürich, 35:26, í Schaffhausen í gær. Þetta var níundi sigur Kadetten í svissnesku A-deildinni á leiktíðinni. Liðið er lang efst og taplaust.
  • Áfram heldur Skanderborg AGF, lið Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, að gera það gott í dönsku úrvalsdeildinni. Í gær vann Skanderborg liðsmenn Bjerringbro/Silkeborg, 35:29, á útivelli. Donni skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum og var markahæstur ásamt dansk/færeyska handknattleiksmanninum Johán á Plógv Hansen sem leikur í hægra horni.
  • Skanderborg AGF er í þriðja sæti úrvalsdeildar með 10 stig eftir sjö leiki. Á þriðjudaginn hefur Skanderborg þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -