- Auglýsing -
- Heiðmar Felixson verður hugsanlega við stjórnvölin hjá þýska liðinu Hannover-Burgdorf í dag þegar það mætir Eisenach í þýsku 1. deildinni. Christian Prokop var með iðrakvef í gær og gat ekki stýrt æfingunni. Óvíst er hvort Prokop verði búinn að ná heilsu fyrir viðureignina í dag. Sven-Sören Christophersen íþróttastjóri Hannover-Burgdorf verður Heiðmari innan handar ef Prokop verður áfram veikur heimavið.
- Norska landsliðskonan Maren Aardahl hefur skrifað undir nýjan samning við danska meistaraliðið Odenese Håndbold. Samningurinn tekur til næstu fjögurra ára. Aardahl kom til danska félagsins fyrir fjórum árum og líkar greinilega lífið í fæðingabæ HC Andersen.
- Ljóst virðist að Nikola Portner markvörður Evrópumeistara Magdeburg og landsliðs Sviss fari frá Magdeburg næsta sumar. Hann er í leikbanni til 10. desember vegna notkunar á ólöglegum lyfjum og varð félagið strax í september að bregðast við með kaupum á landsliðsmarkverði Króatíu frá RK Zagreb. Virðist ljóst að Magdeburg hafi gefist upp á Portner. Hann er orðaður við fjögur lið þessa dagana, m.a. Stuttgart, Gummersbach auk frönsku liðanna Nantes og PSG.
- Endalaus orðrómur hefur verið síðustu vikur um hugsanlega för danska landsliðsmannsins Simon Pytlick til þýska meistaraliðsins Füchse Berlin næsta sumar. Pytlick er leikmaður Flensburg. Ljubomir Vranjes íþróttastjóri Flensburg undirstrikaði í gær að Pytlick væri með samning við félagið til ársins 2030 og ekki standi til að danski landsliðmaðurinn færi frá Flensburg. Hinsvegar væru endalausar „ef og hefði“ fréttir í fjölmiðlum og fólk verði einfaldlega að venjast að þeim fregnum fjölgi frekar en hitt þótt fyrir mörgum þeirra sér enginn fótur.
- Hægri hornamaðurinn, Oskar Vind, hjá GOG er sterklega orðaður við Evrópumeistara SC Magdeburg samkvæmt fregnum þýskra fjölmiðla í gær, þar á meðal Bild sem oftar en ekki hefur hitt naglann á höfuðið.
- Línumaðurinn öflugi, Evegni Penov, leikmaður Fredericia kveður félagið eftir þriggja ára vist næsta sumar. Félagið tilkynnti um þetta í gær.
- Auglýsing -