Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá meisturum Sporting Lissabon í gær þegar liðið vann FC Gaia Empril, 45:28, á heimavelli í sjöundu umferð portúgölsku 1. deildarinnar í handknattleik. Orri Freyr skoraði sjö mörk í níu skotum. Eitt markanna skoraði Orri Freyr úr vítakasti.
Eldri Costa-bróðurinn, Martím, skoraði einnig sjö mörk fyrir Sporting sem hefur þar með unnið sjö fyrstu leiki sína í deildinni. Sporting er tveimur stigum fyrir ofan Porto sem Þorsteinn Leó Gunnarssonar leikur með og handbolti.is sagði frá í gærmorgun.
Stiven Tobar Valencia og liðsfélagar í Benfica færðust upp að hlið Porto með 19 stig er þeir lögðu Aguas Santas sem er í fjórða sæti deildarinnar, 26:22, á heimavelli rétt eftir hádegið í gær. Stiven Tobar skoraði tvö mörk í jafnmörgum skotum.