- Auglýsing -
- Željko Babić fyrrverandi landsliðsþjálfari Króatíu í handknattleik hefur tekið við þjálfun Zamalek í Egyptalandi. Forsvarsmenn Zamalek ráku óvænt Frakkann Franck Maurice í miðri keppni á heimsmeistaramóti félagsliða í upphafi þessa mánaðar. Maurice hafði aðeins verið þrjá mánuði í starfi eins og handbolti.is sagði frá.
- Ilija Temelkovski fyrrverandi þjálfari karlalandsliðs Norður Makedóníu lést á dögunum, 73 ára gamall. Útför hans fer fram í dag í Skopje. Temelkovski var m.a. þjálfari karlalandsliðsins á EM 2002 og HM 2009 í Króatíu þegar Norður Makedónía náði sínum besta árangri á HM, 11. sæti. Temelkovski hætti fljótlega eftir mótið en sneri aftur til starfa hjá A-landsliðinu 2016 sem aðstoðarþjálfari og var með í fáein ár. Einnig þjálfaði Temelkovski yngri landslið Norður Makedóníu.
- Temelkovski var heilsuveill um nokkurt skeið áður en hann féll frá. Í febrúar voru fregnir um andlát Temelkovski í fjölmiðlum sem reyndist ekki á rökum reistar. Hann svaraði með tilkynningu á samfélagsmiðlum um að fregnir af andláti sínu væri stórlega ýktar. Nú mun engum vafa verið undirorpið um Temelkovski hafi safnast til feðra sinna.
- Norðmaðurinn Simen Lyse hefur samið við franska meistaraliðið PSG frá og með næsta sumri. Lyse er 25 ára gamall og hefur gert það afar gott með Kolstad í heimalandi sínu síðustu fimm ár. Lyse fór upp í gegnum yngri flokka starfið hjá Charlottenlund SK sem er í Þrándheimi eins og Kolstad. Lyse hefur meira og minna átt sæti í norska landsliðinu síðustu þrjú ár.
- Sænska úrvalsdeildarliðið Amo HK hefur samið við danska handknattleiksmanninn Simon Kirkegaard. Kemur hann nú þegar til félagsins frá TTH Holstebro þar sem hann hefur fengið fá tækifæri eftir að Jóhannes Berg Andrason kom til danska liðsins í sumar. Kirkegaard á að vera Arnari Birki Hálfdánssyni til halds og trausts hjá Amo, eftir því sem fram kemur í tilkynningu félagsins í gær.
- Uroš Bregar fyrrverandi þjálfari kvennalandslið Slóveníu og síðar Serbíu hefur framlengt samning sinn sem aðstoðarþjálfari Evrópumeistara Györi til ársins 2028. Bregar hefur unnið afar vel með Svíanum Per Johansson.