- Auglýsing -
- Haukur Þrastarson skoraði þrisvar og gaf fjórar stoðsendingar í þriggja marka tapi Rhein-Neckar Löwen, 25:22, í heimsókn til Lemgo í gærkvöld í níundu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Rhein-Neckar Löwen er í sjöunda sæti deildarinnar með 10 stig eftir níu leiki. Lemgo heldur hinsvegar áfram að fikra sig upp töfluna er nú komið í annað sæti með 15 sig, er aðeins stigi á eftir Flensburg sem lagði Eisenach á útivelli í gær, 38:32.
Standings provided by Sofascore
- Jóhannes Berg Andrason skoraði eitt mark í þremur skotum þegar TTH Holstebro tapaði með níu marka mun, 34:25, á heimavelli í gærkvöld fyrir HØJ í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
- Arnór Atlason er þjálfari TTH Holstebro-liðsins sem situr sem stendur í sjötta sæti úrvalsdeildar með sjö stig eftir átta leiki. Viðureignin í gær var sú fyrsta í áttundu umferð. HØJ er stigi á eftir í níunda sæti.
- Arnór Viðarsson var ekki í leikmannahópi HF Karlskrona í gær þegar liðið gerði jafntefli við VästeråsIrsta HF, 28:28, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Karlskrona var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13. Karlskrona, sem lék í Evrópudeildinni á þriðjudaginn, situr í áttunda sæti deildarinnar með átta stig eftir átta leiki.
- Auglýsing -