- Auglýsing -
- Hákon Daði Styrmisson var markahæstur og skoraði 10 mörk úr 13 skotum þegar Eintracht Hagen vann Eulen Ludwigshafen, 39:29, í 8. umferð þýsku 2. deildarinnar í handknattleik í gær. Sex markanna skoraði Hákon Daði úr vítaköstum.
- Eintracht Hagen situr í öðru sæti deildarinnar, aðeins stigi á eftir Bietigheim. Eins og undanfarin ár er mjótt á mununum og aðeins munar á fjórum stigum á Bietigheim sem er efst og TV Großwallstadt í áttunda sæti.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Formlega var tilkynnt um komu Nikola Roganovic, 19 ára gamals sænsks handknattleiksmanns til Vfl Gummersbach í gær. Hann kemur til starfa hjá Guðjóni Val Sigurðssyni næsta sumar. Eins og handbolti.is sagði frá fyrir mánuði þá hafði Gummersbach betur í kapphlaupi við Barcelona um Roganovic sem leikur út leiktíðina með Malmö. Roganovic var valinn mikilvægasti leikmaður EM18 ára sumarið 2024 og var í úrvalsliði HM19 ára sem fram fór í ágúst í Egyptalandi.
- Kentin Mahé leikmaður Gummersbach í Þýskalandi hefur ákveðið að gefa ekki oftar kost á sér í franska landsliðið. Mahé ætlar að gefa fjölskyldu sinni meiri tíma eftir meira en áratug með franska landsliðinu. Á árum sínum með landsliðinu hefur Mahé orðið Ólympíumeistari, heims og Evrópumeistari.
- Hinn gamalreyndir þýski handknattleiksþjálfari Jörn-Uwe Lommel er hættur þjálfun ASV Hamm-Westfalen. Hann tók við þjálfun liðsins í sumar eftir að það féll í 3. deild. Lommel segir í tilkynningu að ljóst sé orðið að hann sé ekki rétti maðurinn til þess að rífa liðið upp og því ætli hann ekki rembast áfram eins og rjúpan við staurinn. Rétt sé að annar maður taki við þjálfun liðsins.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -