Kröfu Sýnar um flutningsrétt á útsendingum efnis Handboltapassans hefur verið hafnað af Fjarskiptastofu, FST, eftir því fram kemur í tilkynningu. Sýn hf. sendi Fjarskiptastofu (FST) erindi þar sem fjarskiptafélagið krafðist flutningsréttar að útsendingum íslenska handboltans sem dreift væri af Símanum hf. undir heitinu Handboltapassinn, með vísan til 1. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga. Síminn hf. (Síminn) hafði hafnað beiðni Sýnar á þeim grundvelli að útsendingarnar væru á vegum Handknattleikssambands Íslands (HSÍ), en ekki hluti af eigin fjölmiðlaþjónustu.
Framleiðsla og ritstjórnarvald hjá HSÍ
Sýn mótmælti þeirri túlkun og hélt því fram að Síminn, sem skráð fjölmiðlaveita, bæri ábyrgð á útsendingunum þar sem félagið sæi í raun og veru um viðskiptalega umgjörð Handboltapassans. FST kallaði eftir upplýsingum frá HSÍ og fékk afhentan samning milli HSÍ og Símans. Samkvæmt upplýsingum frá HSÍ væri framleiðsla og ritstjórnarvald yfir myndefninu alfarið á vegum sambandsins.
FST óskaði því næst eftir áliti Fjölmiðlanefndar en hún taldi að Síminn væri ekki fjölmiðlaveita um þetta myndefni í skilningi laganna heldur HSÍ. Nefndin lýsti því yfir að hún myndi beina því til HSÍ að skrá fjölmiðlastarfsemi sína.
Niðurstaða FST byggði á því að gögn málsins gæfu ekki annað til kynna en að ritstjórnarleg ábyrgð á útsendingum Handboltapassans væri í höndum HSÍ. Í málinu hefði komið fram að HSÍ framleiddi efnið, ákveddi verðlagningu og skipulag leikja, en Síminn greiddi HSÍ fyrir útsendingarrétt og sæi um umsýslu áskrifta að Handboltapassanum.
Skráður fjölmiðill
Undir rekstri málsins eða um miðjan september hafði Handboltapassinn síðan verið skráður sem fjölmiðill og HSÍ skráð sem fjölmiðlaveita um þann fjölmiðil.
FST vísaði frá kröfu Sýnar um flutningsrétt þar sem henni var ekki beint að réttum aðila þar sem Síminn væri ekki fjölmiðlaveitan um þetta myndefni. Kom því ekki til úrlausnar FST að ákveða sanngjarnt endurgjald fyrir flutninginn.




