- Auglýsing -
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk úr sjö skotum í dag þegar IK Sävehof vann Boden Handboll IF, 32:26, í síðasta leik fimmtu umferðar sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik.
Leikurinn fór fram í Boden í norðurhluta Svíþjóðar. IK Sävehof endurheimti efsta sæti sænsku úrvalsdeildinnar með sigrinum. Liðið hefur átta stig eftir fimm leiki. Stórlið Önnereds hefur einnig átta stig en hefur lakari markatölu en Partille-liðið.
Elín Klara var markahæst hjá IK Sävehof. Fjögur markanna skoraði hún úr vítaköstum.
Keppni er mjög jöfn í sænsku úrvalsdeildinni. Aðeins er þriggja stiga munur á efsta liðinu og því sem situr í áttunda sæti.
- Auglýsing -



