Patrekur Jóhannesson er hættur þjálfun kvennaliðs Stjörnunnar. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum. Ekki hefur gengið sem skildi hjá Stjörnunni á leiktíðinni. Liðið er neðst og stigalaust í Olísdeild kvenna eftir sex umferðir og féll úr leik í 16-liða úrslitum Poweradebikarkeppninni í gærkvöld eftir að hafa tapað fyrir FH.
Ekki liggur fyrir hver tekur við af Patreki. Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur verið þjálfari Stjörnuliðsins með Patreki frá sumrinu 2024.
Patrekur tók við þjálfun kvennaliðs Stjörnunnar af Sigurgeiri Jónssyni eftir leiktíðina vorið 2024.
Fréttin hefur verið uppfærð:
Nokkrum mínútum eftir að fréttin fór í loftið staðfesti handknattleiksdeild Stjörnunnar starfslok Patreks í tilkynningu:
„Patrekur Jóhannesson lætur af störfum sem þjálfari mfl.kvk í handbolta
Stjarnan og Patrekur hafa komist að samkomulagi um að Patrekur láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu. Patrekur hefur starfað fyrir Stjörnuna síðan 2020 sem þjálfari mfl. karla, rekstrarstjóri handknattleiksdeildar og þjálfari mfl.kvk.
Frá því að Patrekur hóf störf fyrir handknattleiksdeild Stjörnunnar hefur átt sér stað mikil uppbygging innan deildarinnar sem hann á stóran þátt í.
Stjarnan þakkar Patta fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur.
Takk kærlega fyrir okkur Patti!
SKÍNI STJARNAN.“




