- Auglýsing -
- Nikola Portner, landsliðsmarkvörður Sviss, virðist vera á leið frá Evrópumeisturum SC Magdeburg. Hann hefur verið orðaður við ýmis félög á síðustu viku. Nýjasta liðið er Pick Szeged í Ungverjalandi eftir því sem Sport Bild í Þýskalandi segir frá.
- Portner er í leikbanni til 10. desember eftir að hafa í lok sumars gengist undir dómssátt hjá Alþjóða íþróttadómstólnum í máli sem höfðað var gegn honum vegna falls á lyfjaprófi vorið 2024.
- Franski handknattleiksmaðurinn Dika Mem er sagður vera undir smásjá þýska meistaraliðsins Füchse Berlin. Mem er sagður hafa verið á ferð í september á að hafa rætt við forráðamenn félagsins, eftir því sem Sport Bild greindi frá í gær.
- Mem er einn allra fremsti handknattleiksmaður heims. Hann hefur um árabil leikið með Barcelona og er samningsbundinn félaginu fram á mitt árið 2027.
- Spænski landsliðsmarkvörðurinn Gonzalo Perez de Vargas hefur náð afar skjótum og bata eftir að hafa slitið krossband í hné snemma árs. Níu mánuðum eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna krossbandsslitsins lék hann með THW Kiel á sunnudaginn í þýsku 1. deildinni gegn Bergischer.
- De Vargas, sem gekk til liðs við THW Kiel í sumar frá Barcelona, lék með THW Kiel í nærri 10 mínútur í leiknum á sunnudaginn var. Hann var ekki í leikmannahópi THW Kiel í Evrópudeildinni BSV Bern í gærkvöld. Þriðji markvörður THW Kiel, Leon Nowottny, stóð í markinu allan leikinn meðan Andreas Wolff landsliðsmarkvörður Þýskalands sat á bekknum frá upphafi til enda leiksins.
- Þýski landsliðsmaðurinn, Nils Lichtlein, sem meiddist í fyrri vináttuáttuleik Þýskalands og Íslands fyrir nærri tveimur vikum, verður frá keppni í ótiltekinn tíma, a.m.k. út þennan mánuð. Lichtlein er leikmaður Füchse Berlin.
- Egypski handknattleiksmaðurinn Hassan Kaddah hefur verið leystur undan samningi hjá pólska liðinu Industria Kielce en hann var samningsbundinn félaginu fram til ársins 2027. Ferill Kaddah hjá Kielce undanfarin ár hefur verið þyrnum stráður vegna meiðsla og hann tekið þátt í fáum leikjum síðan hann flutti til félagsins fyrir fjórum árum.
- Auglýsing -




