„Þetta er mjög sterkt lið sem er í efsta sæti í Þýskalandi. Vonandi náum við að veita þeim keppni. Það er að minnsta kosti markmiðið,“ segir Hildur Björnsdóttir fyrirliði Íslandsmeistara Vals sem mæta þýska liðinu HSG Blomberg-Lippe klukkan 17 í dag í síðari viðureign liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn fer fram í N1-höll Vals á Hlíðarenda.
Valur tapaði með 13 marka mun í fyrri viðureigninni, 37:24, fyrir viku í Þýskalandi. Valsarar ætla að leggja allt í sölurnar á heimavelli í dag til þess að veita Blomberg-Lippe sem mesta mótspyrnu. Til þess að svo megi vera vilja þær fá sem flesta á völlinn.
„Þetta verður stór viðburður hjá okkur á Hlíðarenda. Það er alltaf gaman að mæta á Evrópuleik á Hlíðarenda,“ segir Hildur og undirstrikar að með mörgum landsliðskonum megi treysta á að áhorfendur sjái góðan handknattleik leikinn.
Með HSG Blomberg-Lippe leika landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir sem var samherji Hildar og Valskvenna á síðasta keppnistímabili. Andrea er meidd og verður ekki með í dag.
Fimm leikmenn Vals eru í íslenska landsliðshópnum sem tekur þátt í HM síðar í þessum mánuði auk íslensku landsliðskvenna HSG Blomberg-Lippe-liðsins. Þá er víst að tvær úr leikmannahópi þýska liðsins verða í þýska landsliðinu sem mætir íslenska landsliðinu í upphafsleik HM, 26. nóvember í Stuttgart.
Lengra viðtal við Hildi er í myndskeiði ofar í þessari grein.
Eitt sterkasta lið sem komið hefur til landsins
Tilbúnar í vinnu til að mæta sterkum liðum



