- Auglýsing -
- Norski markvörðurinn André Kristensen sem varið hefur markið hjá Sporting Lissabon síðustu þrjú árin er sterklega orðaður við þýska liðið Flensburg. Flensburg er á útkikki eftir markverði til að fylla skarðið sem Daninn Kevin Møller skilur eftir sig. Møller flytur heim til Danmerkur næsta sumar og gengur til liðs við GOG á Fjóni. Kristensen hefur leikið 17 landsleiki fyrir Noreg.
- Anna Kristensen, markvörður danska landsliðsins og Esbjerg, hefur í hyggju að semja við ungverska liðið FTC (Ferencváros) frá og með næsta tímabili. Kristensen sló í gegn með danska landsliðinu á EM í fyrra. Jesper Jensen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur og Esbjerg, er þjálfari FTC.
- Í stað Kristensen hefur Esbjerg samið við Silje Solberg, annan af helstu markvörðum norska landsliðsins á undanförnum árum.
- Fjórða fréttin af markvörðum er sú að Johanna Bundsen, markvörður sænska landsliðsins, hefur samið við danska meistaraliðið Odense Håndbold. Hún kemur til félagsins frá Metz í Frakklandi næsta sumar. Bundsen hefur samið við Odense til tveggja ára. Hún var hjá Ludwigsburg í Þýskalandi en eftir að félagið var gjaldþrota í ágúst gekk Bundsen til liðs við Metz á eins árs samningi.
- Jakob Vestergaard þjálfari Odense Håndbold þekkir Bundsen vel en hún var markvörður hjá honum í Ludwigsburg. Vestergaard var farinn frá þýska meistaraliðinu áður en botninn datt úr rekstrinum í sumar.
- Domenico Ebner markvörður Leipzig hefur ákveðið að ganga til liðs við Lemgo. Nicole Roth, unnusta Ebner, er markvörður Blomberg-Lippe.
- Slóveninn Nejc Cehte hefur gengið til liðs við Füchse Berlin frá Eurofarm Pelister. Cehte er ætlað að fylla skarð Fabian Wiede sem sleit krossband í viðureign Füchse Berlin og One Veszprém í Meistaradeild Evrópu fyrir nokkru síðan.
- Auglýsing -



