- Auglýsing -
- Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur mörk í naumum sigri Benfica á CF Os Belenense, 30:29, á útivelli í upphafsleik 12. umferðar portúgölsku 1. deildarinnar í handknattleik í gær. Benfica skaust upp í efsta sæti deildarinnar en óvíst er að liðið haldi efsta sætinu lengi því Sporting og Porto eru skammt á eftir. Bæði lið eiga leiki inni á Benfica. Sporting á meira að segja tvo leiki til góða auk þess að vera eina lið deildarinnar sem er taplaust.
- Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur við annan mann með átta mörk í öruggum sigri Kadetten Schaffhausen á Wacker Thun, 38:31, á heimavelli í 14. umferð efstu deildar í Sviss í gær. Kadetten er efst í deildinni með 28 stig og Óðinn Þór er sem fyrr markahæstur.
- Elmar Erlingsson skoraði þrisvar og átti einnig þrjár stoðsendingar í sigri Nordhorn-Lingen á HC Oppenweiler/Backnang, 34:29, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í gær. Nordhorn er í sjötta sæti.
- Tjörvi Týr Gíslason skoraði fjögur mörk fyrir HC Oppenweiler/Backnang sem rekur lestina í 2. deild eins og áður með 2 stig eftir 12 leiki.
- Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði tvö mörk í öruggum sigri RK Alkaloid á GRK Tikves Kavadarci, 33:24, á heimavelli í efstu deild handknattleiksins í Norður Makedóníu í gær. RK Alkaloid er í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig, fjórum stigum á eftir Vardar sem er efst.
- Ísak Gústafsson skoraði fjögur mörk í 13 marka tapi TMS Ringsted á heimavelli þegar Aalborg Håndbold kom í heimsókn í gær í 13. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik, 35:22. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði ekki mark fyrir TMS Ringsted í leiknum. Ringsted er í 12. sæti af 14 liðum en Aalborg er sem fyrr efst og taplaust.
- Grétar Ari Guðjónsson markvörður og liðsfélagar í AEK unnu Vrilissia, 30:28, á heimavelli í grísku 1. deildinni í gær. AEK er efst í deildinni með 18 stig eftir 10 leiki.
- Hvorki gengur né rekur hjá Degi Eggert Kristjánssyni og liðsfélögum Vinslövs HK í Allsvenskan, næstu efstu deild sænska handknattleiksins. Vinslövs HK tapaði níunda leiknum í gær. Að þessu sinni tapaði liðið fyrir HK Aranäs á heimavelli, 35:33. Dagur Sverrir skoraði ekki mark í leiknum. Vinslövs HK rekur lestina í deildinni án stiga.
- Auglýsing -


