Róbert Sigurðarson leikmaður ÍBV var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ í dag. Róbert var útilokaður frá viðureign ÍBV og Vals á laugardaginn. Hann verður þar af leiðandi ekki með ÍBV gegn HK í Olísdeild karla á föstudaginn þegar liðin mætast í Kórnum.
Tindur Ingólfsson leikmaður Fram 2 verður einnig að bíta í það súra epli að sitja yfir í næsta leik liðsins. Hann var útilokaður frá viðureign Fram 2 og ÍH í Grill 66-deild karla á laugardaginn.
Þriðji leikmaðurinn sem úrskurðaður var í leikbann á fundi aganefndar í dag er Patrekur Guðni Þorbergsson, leikmaður Þórs 2. Hann var útilokaður vegna mjög ódrengilegrar hegðunar í leik Víkings 2 og Þórs 2 í 2. deild karla á föstudaginn var.
Ingi Hrafn Sigurðsson leikmaður Hvíta riddarans var útilokaður í viðureign Víðis og Hvíta riddarans 2 í 2. deild karla á sunnudaginn. Ingi Hrafn verður að hugsa sinn gang utan vallar þegar Hvíti riddarinn 2 mætir næst til leiks því hann var úrskurðaður í eins leiks bann.
Verða að gæta að sér
Ihor Kopyshynskyi leikmaður Aftureldingar, Valdimar Örn Ingvarsson leikmaður Selfoss, Brynjar Jökull Guðmundsson leikmaður Víkings 2, Ágúst Birgisson leikmaður FH og Þráinn Orri Jónsson leikmaður Hauka sleppa við leikbönn þar sem þeirra brot voru af öðrum toga þrátt fyrir útilokun frá leikjum. Aganefnd vekur athygli þeirra á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota.
Sjá nánar: Aganefnd HSÍ | Úrskurður 25.11. ’25


