Aftureldingu barst dýrmæt gjöf á dögunum, þegar fjölskylda Lárusar Hauks Jónssonar færði félaginu verðmæta áritaða treyju frá tímabilinu 1998-1999. Tímabilið þar sem meistaraflokkur karla í handknattleik vann alla þá titla sem voru í boði og markaði djúp spor í sögu og hjarta bæjarins.
Lalli var einn af bestu vinum Aftureldingar og lykilmaður í kringum umgjörðina og stemmninguna sem myndaðist fyrir handknattleiksliðinu okkar fyrir og um aldamót,” segir í tilkynningu Aftureldingar.
Því má bæta að Lárus Haukur, sem lést fyrr á þessu ári, lék um árabil handknattleik og knattspyrnu með Aftureldingu. Á síðasta áratug síðustu aldar og á fyrstu árum þessarar aldar var Lárus vallarþulur á leikjum meistaraflokks karla hjá Aftureldingu og ruddi brautina fyrir aðra vallarþuli, ekki bara hjá Aftureldingu heldur hjá öðrum félögum. Sameinaðist þar þekking hans á íþróttinni og öðru áhugamáli, leiklist.
Afturelding þakkar fjölskyldu Lalla fyrir ómetanlega gjöf og lofar að koma henni upp á góðum og sýnilegum stað að Varmá.


