Eftir afar erfiða byrjun þá tókst Íslandsmeisturum Vals að snúa leiknum sér í hag gegn Stjörnunni á heimavelli og vinna með 10 marka mun, 32:22, í upphafsleik 10. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik. Valur situr þar með áfram í efsta sæti deildarinnar með 16 stig. Stjarnan er að sama skapi á botninum með eitt stig sem það fékk í jafntefli við KA/Þór í byrjun vetrar.
Leikmenn Stjörnunnar virtust koma værukærum leikmönnum Vals í opna skjöldu í upphafi leiks. Stjarnan skoraði fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Eftir stundarfjórðungsleik var Stjarnan enn þá yfir, 9:5. Þá skoraði Valur 10 mörk í röð áður en Stjarnan klóraði í bakkann með síðasta marki fyrri hálfleiks.
Valur skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og hélt Stjörnunni í hæfilegri fjarlægð allt þar til á allra síðustu mínútum er munurinn jókst meira. Laufey Helga Óskarsdóttir skoraði 32. mark Vals á síðustu sekúndum.
Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir var best hjá Val með 11 mörk og nýtti sín færi vel. Thea Imani Sturludóttir var ekki með Valsliðinu í dag.
Natasja Hammer var best hjá Stjörnunni. Eins var Margrét Einarsdóttir vel með á nótunum í markinu gegn sínu gamla félagi. Margrét var svo sem ekki öfundsverð af hlutverki sínu að þessu sinni en gerði sitt besta og varði 13 skot.
Mörk Vals: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 11, Lovísa Thompson 6, Elísa Elíasdóttir 4, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4, Arna Karitas Eiríksdóttir 2, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Laufey Helga Óskarsdóttir 1, Mariam Eradze 1, Sara Lind Fróðadóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 10.
Mörk Stjörnunnar: Natasja Hammer 7, Eva Björk Davíðsdóttir 5, Inga Maria Roysdottir 3, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Sara Katrín Gunnarsdóttir 2, Aníta Björk Valgeirsdóttir 1, Bryndís Hulda Ómarsdóttir 1, Vigdís Arna Hjartardóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 13.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.





