Fram vann ÍR öðru sinni á keppnistímabilinu í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag, 30:27, í Skógarseli. Um leið var þetta fyrsta tap ÍR-inga í deildinni síðan lið þeirra tapaði fyrir Fram í Lambhagahöllinni 4. október, 32:30. Staðan var jöfn í hálfleik í dag, 13:13.
Framarar tóku fljótlega frumkvæðið í síðari hálfleik eftir jafnan fyrri hálfleik. Með tveggja til þriggja marka forskot léku Framarar betur, ekki síst var varnarleikur liðsins á köflum ágætur. Dagmar Guðrún Pálsdóttir náði að halda aftur af Söru Dögg Hjaltadóttir, markahæstu konu Olísdeildarinnar, sem náði sér ekki á sama strik og í mörgum leikjum leiktíðarinnar.
ÍR eygði von fimm mínútum fyrir leikslok er munurinn var kominn niður í eitt mark Fram í hag en tókst ekki að færa sér möguleikana í nyt. Rúmum þremur mínútum fyrir leikslok varð ÍR-liðið manni færra er Matthildi Lilju Jónsdóttur var vikið af leikvelli. Fram nýtti sér liðsmuninn til að ná þriggja marka forskoti sem ÍR tókst ekki að vinna upp.
Fram sleit sig úr samfylgdinni við KA/Þór með sigrinum og situr eitt í fjórða sæti með 11 stig eftir leikina 10. ÍR er í öðru sæti með 14 stig, alltént fram yfir viðureign Selfoss og ÍBV á morgun.
Mörk ÍR: Vaka Líf Kristinsdóttir 7, Sara Dögg Hjaltadóttir 6, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 6, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 4, Katrín Tinna Jensdóttir 1, María Leifsdóttir 1, Matthildur Lilja Jónsdóttir 1, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 1.
Varin skot: Oddný Björg Stefánsdóttir 7, Sif Hallgrímsdóttir 2.
Mörk Fram: Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 9, Ásdís Guðmundsdóttir 9, Valgerður Arnalds 6, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 3, Hulda Dagsdóttir 1, Íris Anna Gísladóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 7, Arna Sif Jónsdóttir 4.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.





