„Það sem gerðist hjá okkur í fyrri hálfleik er eitthvað sem ég vona að gerist aldrei aftur hjá liði undir minni stjórn,“ sagði Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA/Þórs í viðtali við Sjónvarp Símans/Handboltapassann eftir 15 marka tap liðsins fyrir Haukum í 10. umferð Olísdeildar í Kuehne+Nagel höllinni á Ásvöllum í dag. Lokatölur 35:20 eftir 14 marka mun að loknum fyrri hálfleik, 24:10.
Frammistaðan til skammar
„Við vorum með núll löglegar stöðvanir í fyrri hálfleik, ef ég skil rétt. Uppleggið hjá okkur gekk augljóslega ekki upp og frammistaðan var til skammar fyrir okkur sem hóp og lið,“ sagði Jónatan Þór enn fremur og var skiljanlega þungur á brún. „Sem betur fer skánaði leikur okkar í síðari hálfleik. Hvað nákvæmlega fór úrskeiðis get ég ekki sagt nákvæmlega um en ég vona bara að svona nokkuð gerist ekki aftur hjá liði undir minni stjórn,” sagði Jónatan Þór.
Sýni leikinn í dag
Spurður hvernig hann ætlað koma liðinu inn á sporið fyrir næsta leik var Jónatan Þór ekki seinn til svars:
„Ætli að ég sýni ekki bara upptöku af fyrri hálfleiknum í dag. Við vorum svo augljóslega langt frá öllu sem við ætluðum okkur að gera. Við verðum þess vegna að nýta vel þá daga sem eru fram að næsta leik og íhuga hvernig við ætlum að koma til leiks. Í dag snerist leikur okkar ekki um taktík heldur það sem við lögðum í leikinn, orkustigið var vont. Það verðum við að bæta enda var það betra í síðari hálfleik,“ sagði Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA/Þórs en lið hans sýndi allt aðra og lakari hlið í dag en það hefur gert lengi vel á keppnistímabilinu.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.




