- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði tvö mörk fyrir Sporting í uppgjöri Lissabon-liðanna, Sporting og Benfica, í portúgölsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær, 37:29. Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica.
- Sporting er þar með efst þegar jólafrí er hafið í deildinni. Liðið er með 51 stig eftir 17 leiki. Benfica er með 45 stig í öðru til þriðja sæti ásamt Porto.
- Sveinn Jóhannsson lék í 25 mínútur með Chambéry þegar liðið vann Tremblay, 40:33, á útivelli í frönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Sveinn skoraði einnig tvö mörk og nýtti bæði marktækifæri sín í leiknum. Chambéry hefur verið á siglingu upp á síðkastið og er nú komið í 5. sæti deildarinnar með 17 stig eftir 15 leiki.
- Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sex mörk fyrir IFK Kristianstad í sigri á efsta liði sænsku úrvalsdeildarinnar, Malmö, 40:28, á heimavelli í gær. Kristianstad færðist upp í annað sæti deildarinnar með 24 stig með sigrinum í gær. Malmö er einnig með 24 stig í þriðja sæti. Hammarby skaust í efsta sæti með öruggum sigri á Önnereds, 36:29.
- Jóhannes Berg Andrason skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu þegar lið hans TTH Holstebro tapaði á heimavelli fyrir Danmerkurmeisturum Aalborg Håndbold, 35:31. Arnór Atlason er þjálfari TTH Holstebro sem er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig að loknum 18 leikjum. Þetta var síðasti leikur TTH Holstebro á árinu.
- Jón Ísak Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir Lemvig í stórsigri á Vendsyssel, 29:18, í næstefstu deild danska handknattleiksins í gærkvöld. Lemvig situr í sjöunda sæti með 17 stig eftir 16 leiki.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -


