- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson og Emil Nielsen voru hvor sinn hálfleikinn í marki Barcelona í gær þegar liðið vann Logrono La Rioja, 43:30, í 15. umferð spænsku 1. deildarinnar í handknattleik á heimavelli í gær. Viktor Gísli varði 7 skot, 30% þann tíma sem hann var á vaktinni.
- Barcelona er efst með 30 stig eftir 15 leiki en Logrono La Rioja er í öðru sæti með 21 stig.
- Landsliðskonan Dana Björg Guðmundsdóttir var markahæst hjá Volda þegar liðið vann Bækkelaget, 36:31, í næstefstu deild norska handknattleiksins í gær. Dana Björg skoraði sjö mörk. Volda er í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig að loknum 11 leikjum. Flint er efst með 20 stig svo það munar litlu á efstu liðunum.
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Fjellhammer þegar liðið mætti meisturum Storhamar í norsku úrvalsdeildinni í gær. Storhamar vann leikinn, 25:22. Auk markanna tveggja lét Birta Rún til sín taka í vörninni hjá Fjellhammar. Liðið er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með 4 stig eftir 10 leiki.
- Lærisveinar Elíasar Más Halldórssonar hjá Ryger í Stafangri gerðu jafntefli á heimavelli í gær við Lillestrøm HK, 30:30, í næstefstu deild karla í Noregi. Lillestrøm HK hafði fjögurra marka forskot þegar fyrri hálfleikur var úti, 16:12. Ryger er í 12. sæti af 14 liðum með sjö stig eftir 13 viðureignir.
- Skara HF tapaði fyrir Boden Handboll IF, 29:24, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Lena Margrét Valdimarsdóttir var ekki á meðal þeirra sem skoruðu fyrir Skara. Hún átti eina stoðsendingu. Skara er í þriðja sæti deildarinnar á eftir IK Sävehof og Önnereds.
- Auglýsing -




