- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Kurr er í kringum Dinart sem er í veikindaleyfi

- Auglýsing -

Mikið kurr er í kringum Didier Dinart, fyrrverandi landsliðsþjálfara og landsliðsmann Frakklands, hjá franska liðinu US Ivry. Hann er þjálfari liðsins að nafninu til en hefur sjaldan sést á æfingum síðan í sumar og er sagður í veikindaleyfi.

Á miðvikudaginn greindi Agence France-Presse frá ummælum leikmanna liðsins sem ásaka Dinart um stjórnunarstíl sem einkennist af mikilli hörku og því sem þeir kalla eitraða stjórnun. Þótt Dinart sé í veikindaleyfi hjá Ivry er hann að fullu að búa landslið Svartfjallalands undir þátttöku á Evrópumótinu í næsta mánuði og ekki annað vitað en að heilsan sé viðunandi.

Niðurlægjandi þjálfunaraðferðir

Samkvæmt AFP segja leikmenn, undir nafnleynd, að æfingaumhverfið hafi einkennst af niðurlægjandi þjálfunaraðferðum. Gagnrýnin leiddi að sögn til fundar milli leikmannahópsins og stjórnar félagsins. Í kjölfarið hóf Ivry innri rannsókn sem enn er ekki lokið. Forseti félagsins, François Lequeux, hefur staðfest rannsóknina en vill ekki tjá sig frekar um málið.

Dinart er sagður vísa ásökununum á bug. Lögmaður hans, Anthony Mottais, segir að yfirlýsingar leikmannanna séu til þess fallnar að drepa málum á dreif.

Upp úr sauð

Upp úr mun hafa soðið síðla í október þegar leikmenn fóru í verkfall og neituðu að æfa undir stjórn Dinart þegar hann mætti óvænt á æfingu.

Aðstoðarþjálfarinn Thibault Vaquerin hefur tekið við daglegri þjálfun og er liðið nú í þriðja sæti Proligue-deildarinnar en svo nefnist næstefsta deildin í Frakklandi. Ivry féll úr efstu deild í vor sem leið.

Samstarfsslit liggja í loftinu

Allt bendir þó til þess að samstarfsslit Dinart og US Ivry liggi í loftinu. Hann er með samning sem gildir til sumarsins 2026 en sambandið milli hans og stjórnar mun vera spennuþrungið.

Dinart hefur víða komið við sem þjálfari og starfsmaður handknattleiksfélaga á síðustu árum en átt erfitt með að festa rætur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -