- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Síðast vildu Íslendingarnir fá að djamma

- Auglýsing -

Tinna Mark Antonsdóttir Duffield, tengiliður mótshaldara í Kristianstad í Svíþjóð fyrir Evrópumótið í handknattleik karla, segir búið að draga ýmsan lærdóm af því þegar íslenska landsliðið spilaði síðast í bænum á HM 2023.

Ísland leikur í F-riðli í Kristianstad dagana 16., 18. og 20. janúar. Fjöldi viðburða hafa verið skipulagðir vegna komu Íslendinganna, sem Tinna reiknar með að verði a.m.k. 2.500. Skemmtistaðir verða til að mynda opnir lengur og stærri salir verða opnaðir í þeim vegna fjölda Íslendinga.

Kristianstad verður umturnað í Litla-Ísland

Eiga mikið hrós skilið

„Veitingastaðir, kaffihús og búðir verða með lengri afgreiðslutíma en vanalega. Það verða tilboð fyrir Íslendinga á einhverjum af börunum og veitingastöðunum. Það eru nokkrar líkamsræktarstöðvar hérna en hjá einni þeirra verður frítt inn. Íslendingarnir eru velkomnir að mæta í ræktina ef þeir vilja æfa!

Bænum verður umturnað í Litla-Ísland. Það verður öllu til tjaldað. Þetta verður svo flott. Mótshaldararnir eiga mikið hrós skilið fyrir það hvað þeir eru búnir að undirbúa þetta vel. Þetta verður ekkert smá skemmtilegt.

Það er búið að stækka „fan-zoneið“ (innsk. samkomusvæði stuðningsfólks) þannig að það mun taka 1.800 manns. Ég held að síðast hafi það verið eitthvað um þúsund manns, 1.200 kannski,“ segir Tinna.

Tinna er tengiliður mótshaldara í Kristianstad. Mynd: Úr einkasafni

Skemmtistaðir ekki opnir síðast

„Fan-zoneið opnar klukkan 11 og verður svo opið eftir því hve lengi stemningin verður til staðar eftir leikina. Það verður bara partý. Síðast var kvartað yfir því að það væru ekki opnir skemmtistaðir eftir leikina, Íslendingarnir vildu náttúrlega fá að djamma aðeins eftir þá.

Núna verður opið á helstu skemmtistöðum bæjarins eftir leikina. Það verður opið föstudag, laugardag og sunnudag þannig að það verður hægt að djamma alla helgina, fyrir þá sem eru í þeim gír,“ bætir hún við.

Samgöngur hafa verið bættar

Tinna segir mótshaldara hafa dregið lærdóm af síðustu heimsókn íslensks stuðningsfólks til Kristianstad fyrir þremur árum síðan.

„Já, það var þetta og svo samgöngurnar. Þeir eru búnir að bæta þær líka. Þeir eru í samstarfi við lestarkerfið og strætisvagnana. Svo er ég að reyna að hjálpa því fólki sem er kannski á hótelum sem eru aðeins fyrir utan bæinn, þar sem leiðirnar sem strætóarnir fara passa kannski ekki alveg.

Þá reyna þeir að finna einhverjar lausnir fyrir það fólk, allavega á leikdögunum.  Að það sé eitthvað í boði fyrir það fólk. Þeir reyna að redda öllu sem hægt er að redda.“

Bjuggust ekki við þessu síðast

Allt umfang skipulagsins í Kristianstad er meira en árið 2023 og ekki að ósekju.

„Já, af því að mótshaldararnir bjuggust ekki alveg við þessu síðast. Þeir vissu alveg að það kæmu margir Íslendingar en ekki alveg svona margir. Síðast var ég aðstandandi að fylgja manninum mínum á mótið. Ég bjó ekki í Kristianstad þá en þekkti vel til. Allt þetta fólk sem stjórnar þessu eru vinir okkar úr bænum.

Þá var ég óbeint að beina fólki á fan-zoneið og hjálpa því eitthvað. Þannig kom það til að ég var fengin til að vera hluti af teyminu í þetta sinn,“ segir Tinna Mark Antonsdóttir Duffield að lokum. Maður hennar er handboltamaðurinn Ólafur Andrés Guðmundsson, leikmaður HF Karlskrona.

F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.

EM 2026.

A-landslið karla.

Kristianstad verður umturnað í Litla-Ísland

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -