„Það kemur mér mjög á óvart að EHF grípi inn í á þessum tímapunkti. Ég hef ekki séð prófin þeirra [sem varð þeim að falli – innsk. blm], en þegar ég hef séð Slave Nikolov og Gjorgji Nachevski dæma hefur verið nokkuð ljóst að þeir gætu átt í erfiðleikum með hlaupapróf. Þannig að ég veit ekki af hverju EHF grípur inn í núna, en mér finnst það ánægjulegt að á einhverjum tímapunkti sé sagt að nóg sé komið,“ segir danski handknattleiksþjálfarinn og handboltaspekingurinn Bent Nyegaard við TV2 í Danmörku um frétt gærdagsins þegar EHF tilkynnti að Nikolov og Nachevski væru sterklega grunaðir um að hafa falsað upptökur af æfingum fyrir Evrópumótið í handknattleik karla. Þeir hafa verið strikaðir út af dómaralista Evrópumótsins sem hefst í vikunni.
Hroki hefur verið þeirra einkenni
„Dómaraparið hefur í mörgum tilfellum verið gott í að stjórna leikjum. En parið hefur verið umdeilt. Þetta var til dæmis parið sem neitaði að horfa á myndband af aukakasti [Frakkans [innsk. blm] Elohim Prandi gegn Svíþjóð, sem kostaði Svía sæti í úrslitaleik EM 2024. Hroki þeirra hefur verið einkennandi. En það má ekki gleyma því að þetta er par sem hefur notið virðingar vegna þess að þeir hafa verið færir í að dæma handbolta,“ segir Nyegaard.
EM 2026 – fréttasíða.



