Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV hefur skrifað undir nýjan samning við ÍBV og ætlar að leika með liðinu í Olísdeildinni fram til ársins 2028. Birna Berg hefur verið ein af kjölfestum ÍBV-liðsins síðan hún kom til félagsins fyrir nærri sex árum frá þýska liðinu Neckarsulmer.
Birna Berg hefur sýnt mikla þrautseigju á undanförnum árum með því að vinna sig út úr erfiðum meiðslum og mæta öflug til leiks á ný með ÍBV-liðinu. M.a. var hún valin í íslenska landsliðið í haust eftir þriggja ára fjarveru og var í 35 kvenna hópi Arnars Péturssonar fyrir heimsmeistaramótið í vetur. Landsleikirnir eru 64.
Birna Berg er fjórða markahæst í Olísdeildinni þegar 12 umferðir eru að baki með 77 mörk auk 41 stoðsendingar sem á drjúgan þátt í ÍBV situr ásamt Val í tveimur efstu sætum Olísdeildar með 20 stig eftir 12 leiki.
Fyrsti í Meistaradeildina
Birna Berg er ein reyndasta handknattleikskona landsins. Auk ÍBV hefur hún leikið með FH og Fram hér heima auk IK Sävehof í Svíþjóð, Glassverket IF í Noregi, Aarhus United í Danmörku og Neckarsulmer SU í Þýskalandi. Á árum sínum hjá IK Sävehof var Birna Berg fyrst íslenskra handknattleikskvenna til þess að leika í Meistaradeild Evrópu.




