Slóvenska karlalandsliðið í handknattleik varð fyrir einu áfallinu enn í morgun þegar Handknattleikssamband Slóveníu tilkynnti að Klemen Ferlin, aðalmarkvörður liðsins, sé meiddur og geti því ekki tekið þátt á Evrópumótinu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem hefst á fimmtudaginn.
Óheppni Slóvena þegar kemur að meiðslum leikmanna hefur verið með nokkrum ólíkindum enda er Ferlin, 36 ára markvörður Indurstria Kielce í Póllandi, tíundi leikmaður Slóveníu sem heltist úr lestinni fyrir mótið.
Ferlin er langsamlega besti markvörður Slóveníu og því um mikið áfall að ræða fyrir liðið.
Samkvæmt tilkynningu Handknattleikssambands Slóveníu glímir markvörðurinn reyndi við meiðsli í fæti og hefur af þeim sökum ekki getað æft með liðinu með eðlilegum hætti.
Þar af leiðandi var Ferlin sendur heim til frekari læknisskoðunar.



