- Auglýsing -
Ída Bjarklind Magnúsdóttir leikur ekki meira með Selfossi á yfirstandandi tímabili þar sem hún er barnshafandi. Tilkynnti hún um gleðitíðindin á Instagram aðgangi sínum í gær.
Ída, sem er 26 ára vinstri skytta, hefur verið í stóru hlutverki hjá Selfossi á tímabilinu og skorað 28 mörk í 11 leikjum í Olísdeildinni. Þar vermir Selfoss botninn með fjögur stig.
Því er ljóst að þrátt fyrir gleðitíðindin er um töluverða blóðtöku fyrir Selfoss að ræða. Liðið á í harðri fallbaráttu við Stjörnuna, sem er sæti ofar með fimm stig.
Ída, sem á von á sér í sumar, er uppalin hjá Selfossi en hefur einnig leikið með Víkingi Reykjavík og Stjörnunni á ferli sínum. Hún gekk til liðs við Selfoss á síðasta sumri.
- Auglýsing -



