- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Var staðráðinn í að leggja mitt af mörkum

- Auglýsing -

„Það tók smá tíma að hrista þá af okkur eins og var alveg viðbúið,“ sagði Haukur Þrastarson í samtali við handbolta.is eftir öruggan sigur á Póllandi í annarri umferð F-riðils Evrópumótsins í Kristianstad Arena í Svíþjóð í kvöld.

„Við vorum alveg búnir undir það. En við vorum kannski að fara svolítið illa með boltann og einhver dauðafæri í byrjun. Svo kom það og þá náðum við ágætis forskoti og kláruðum þetta vel,“ hélt Haukur áfram.

Pólland lá í valnum og Ísland í milliriðil

Held að mér hafi tekist það

Staðan í hálfleik var 13:10 en í síðari hálfleik valtaði íslenska liðið yfir það pólska.

„Við töluðum um það í hálfleik að laga þessa einföldu hluti, tæknifeila og klára færin. Um leið og það kom leit þetta strax betur út,“ sagði hann.

Haukur kom mjög sterkur inn í leikinn eftir leikhlé á 20. mínútu.

„Já, ég var staðráðinn í að leggja mitt af mörkum og koma með eitthvað að borðinu. Ég held að mér hafi tekist það,“ sagði hann.

Fullur fókus á Ungverjaland

Sigurinn var sannfærandi, 31:23, þegar upp var staðið.

„Þetta tók smá tíma en við héldum bara einbeitingu. Við vorum ekkert að fara í neina örvæntingu þó að við værum ekki búnir að ná einhverju forskoti  strax í byrjun eða eitthvað í þá áttina. Við gerðum þetta bara vel í 60 mínútur,“ sagði Haukur.

Næst er leikur gegn Ungverjalandi á þriðjudagskvöld þar sem íslenska liðið stefnir að því að klára leikinn vel til þess að fara með stig í milliriðilinn.

„Já, klárlega. Það er það eina sem kemst að. Núna eru þessir tveir leikir frá og það er fullur fókus á það,“ sagði Haukur Þrastarson að lokum í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -