Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik, viðurkenndi að hafa hlaupið illa á sig þegar hann tók leikhlé er Juri Knorr var í þann mund að jafna metin fyrir Þýskaland í tapleik fyrir Serbíu í A-riðli Evrópumótsins í Herning í gærkvöldi.
Knorr hefði jafnað metin í 26:26 á mikilvægum tímapunkti í leiknum en Serbía vann að lokum 30:27, sem þýðir að Þýskaland er komið með bakið upp við vegg í baráttunni um sæti í milliriðli.
Alfreð og Þjóðverjar eru með bakið upp við vegg
„Ég tók ranga ákvörðun. Ég var að fylgjast með leiknum en ég taldi að Knorr myndi ekki ná að brjótast í gegn. Ég gerði mistök. Ég var að fylgjast með leikklukkunni.
Ég vildi taka leikhlé áður en við fengjum dæmda leiktöf á okkur. Ég áttaði mig ekki á því að Knorr væri búinn að skora fyrr en það var um seinan. Það eru mín mistök,“ sagði Alfreð í samtali við þýska miðilinn Sportschau.
Dönsku sérfræðingarnir forviða
Claus Møller Jakobsen og Kasper Hvidt botnuðu hvorki upp né niður í ákvörðun Alfreðs og ræddu atvikið er þeir voru að störfum sem sérfræðingar hjá dönsku sjónvarpsstöðinni TV 2 Sport.
„Alfreð Gíslason var ekki með á nótunum þegar lokamínúturnar gengu í garð. Hann er ekkert að fylgjast með því sem er að gerast á vellinum. Hvers vegna stendur hann og horfir upp á stöðuna í stað þess að fylgjast með því sem er að gerast á vellinum? Það er algjörlega vonlaust,“ sagði Möller Jakobsen í útsendingunni.
„Hvernig er Gíslason ekki að fylgjast með sókn eigin liðs og sér ekki að hann [Knorr] er að brjóta sér leið í gegnum vörnina? Ég hef verið tengdur handbolta í þúsund ár en ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði Hvidt.




