Slóvenía vann magnþrunginn endurkomusigur á Sviss, 38:35, í D-riðli Evrópumóts karla í Unity Arena í Bærum í Noregi í kvöld og tryggði sér þannig sæti í milliriðli.
Slóvenía er á toppnum með fjögur stig, Færeyjar eru í öðru sæti með þrjú stig, Sviss er í þriðja sæti með eitt stig og Svartfjallaland er án stiga á botninum og úr leik.
Slóvenía vann magnaðan 41:40 sigur á Svartfjallalandi í fyrstu umferð og er sem kunnugt er án tíu leikmanna á mótinu vegna meiðsla þeirra. Slóvenía mætir Færeyjum á þriðjudagskvöld og Sviss mætir Svartfellingum fyrr um kvöldið.
EM karla 2026 – úrslit, staðan og leiktímar.
Ekkert benti til þess að Slóvenía myndi fara með sigur af hólmi þegar flautað var til hálfleiks en þá var Sviss sex mörkum yfir, 14:20, eftir að hafa komist mest sjö mörkum yfir í fyrri hálfleiknum.
Sviss komst níu mörkum yfir
Sviss hóf auk þess síðari hálfleikinn á því að skora fyrstu þrjú mörkin í honum og komast þannig níu mörkum yfir, 14:23.
Zorman fékk rautt spjald
Þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik lét Uors Zorman landsliðsþjálfari Slóvena skapið hlaupa með sig í gönur. Hann uppskar rautt spjald og varð að sitja í áhorfendastúkunni og fylgjast með framvindu leiksins. Í leikslok trúði hann vart því sem hafði gerst, þ.e. að lið hans hefði unnið leikinn.
Sviss hélt sex til átta marka forystu um skeið en þegar Slóvenía minnkaði muninn í 23:29 hófst ótrúleg endurkoma Slóvena.
Slóvenar færðust stöðugt nær og voru búnir að jafna metin þegar staðan var orðin 32:32 og komust auk þess yfir í fyrsta sinn í leiknum, 33:32.
Allur meðbyr var eins og gefur að skilja þá með Slóvenum sem unnu að lokum ótrúlegan þriggja marka sigur.
Domen Makuc, Andraz Makuc og Domen Novak voru markahæstir hjá Slóveníu með sex mörk hver.



