„Þetta var bara seiglusigur, vinnusigur. Það var fínt að klára þetta. Það var svona aðalatriðið,“ sagði Ómar Ingi Magnússon við handbolta.is eftir frækinn 24:23 sigur á Ungverjalandi í lokaumferð F-riðils Evrópumótsins í Kristianstad í kvöld.
Leikurinn einkenndist af gífurlegri baráttu, sem var viðbúið að sögn Ómars Inga.
Ungverjagrýlan kveðin niður í mögnuðum sigri Íslands
Varnirnar voru mjög sterkar
„Við vissum alveg að þeir myndu vera mjög þéttir og fastir fyrir. Þeir eru með stóra gæja sem spila þannig. Það kom okkur ekkert á óvart en þetta var svolítið þannig leikur.
Varnirnar voru mjög sterkar, það var mjög erfitt að opna þá. En við vorum líka frábærir í vörn fannst mér. Það var mjög vel gert að klára þetta þó að það hafi ekki allt gengið eins og það átti að gera,“ sagði hann.
Töluðum um að halda okkar striki
Eftir gífurlega baráttu komst Ísland tveimur mörkum yfir undir blálokin og náði svo einni langri sókn til viðbótar áður en Ungverjaland skoraði síðasta mark leiksins tveimur sekúndum fyrir leikslok.
„Við töluðum um það að halda okkar striki og klára þá, sama hvort það væru tíu mínútur eftir eða í lokin. Þá þurftum við bara að gera það. Við kláruðum verkefnið,“ sagði Ómar Ingi.
Ekkert annað að gera en að aðlaga sig að dómgæslunni
Furðuleg dómgæsla norðurmakedónsku dómaranna fór verulega í taugarnar á flestum Íslendingum en Ómar Ingi lét hana ekki mikið á sig fá.
„Ég veit ekki alveg með það. Það var bara eins og það var og við spiluðum út frá því. Það var ekkert annað að gera en að samþykkja það og aðlaga sig.“
Kvaðst hann ánægður með að taka tvö stig með í milliriðil, sem var fyrsta markmið Íslands á mótinu.
„Algjörlega. Það er það sem við ætluðum okkur. Við náum okkur aðeins niður og kíkjum á næsta andstæðing,“ sagði Ómar Ingi Magnússon að lokum í samtali við handbolta.is.



