Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik, telur slæman fyrri hálfleik hafa orðið íslenska liðinu að falli í eins marks tapi fyrir Króatíu í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í Svíþjóð í dag.
„Þeirra upplegg var þannig að þeir náðu að hægja aðeins á leiknum. Þeim lukkast með það. Svo bara skora þeir úr skotunum sínum. Þeir gáfu lítið af færum á sig í fyrri hálfleik. Við vorum bara linir.
Fyrsta tap Íslands kom gegn Króötum Dags
Við vorum ekki nógu stórir í fyrri hálfleik. Það vantaði bara aðeins meira hjarta og aðeins meira eitthvað. Við hefðum alveg getað tekið þetta,“ sagði Janus við handbolta.is
Nóg eftir af mótinu
Munurinn var fjögur mörk í hálfleik og þrátt fyrir betri síðari hálfleik hjá Íslandi tókst liðinu aldrei að jafna metin eða komast yfir í honum.
„Við náum aldrei að komast þessum mörkum yfir sem við hefðum kannski þurft og hefði gefið okkur mikið. Ég þarf svo að sjá vídeó og horfa á þetta aftur.
En það svo sem gefur okkur lítið. Það er bara leikur aftur eftir tvo daga á móti Svíum. Ég verð aðeins svekktur núna inni í klefa og eitthvað fram að kvöldmat. Svo þurfum við að undirbúa okkur.
Mótið er ekki búið, það er nóg eftir. Þetta voru tvö stig sem við ætluðum að ná en þá þurfum við að sækja þau annars staðar. Það er bara stórmót, það er ekkert mikið meira í boði,“ sagði Janus Daði Smárason að lokum við handbolta.is

