Í Handboltahöllinni á Handboltapassanum á mánudagskvöld var 13. umferð Olísdeildar kvenna gerð upp. Frammistaða Ásdísar Guðmundsdóttur í sigri Fram á Stjörnunni var sérstaklega tekin fyrir.
Ásdís skoraði tíu mörk úr 11 skotum af línunni. Hún hefur reynst Fram afar vel á tímabilinu eftir að hafa tekið skóna fram að nýju í kjölfar þess að hafa verið nám í Barcelona.
Einar Ingi Hrafnsson, sérfræðingur Handboltahallarinnar, hrósaði Ásdísi í hástert í þættinum.
„Ásdís er algjör lukkufengur fyrir Framarana. Hún byrjaði tímabilið kannski tiltölulega rólega en núna undanfarið er hún búin að vera frábær. Halli er búinn að kenna henni rykkina milli tvists sem Halli fann upp hérna fyrir einhverjum árum,“ sagði Einar Ingi og vísaði til Haraldar Þorvarðarsonar þjálfara Fram.
„Ætli hún sé jafn reið þegar hún fær ekki boltann undir tvistinum eins og Halli var?“ spurði Ásbjörn Friðriksson, annar sérfræðingur Handboltahallarinnar, í léttum tón.
Umræðuna um Ásdísi ásamt nánari umræðu um Fram má sjá í myndskeiðinu hér fyrir ofan.
Fram heimsækir KA/Þór í KA heimilið í 14. umferð Olísdeildarinnar klukkan 15 í dag.



