Slóvenía vann góðan sigur á Ungverjalandi, 35:32, þegar liðin áttust við í annarri umferð milliriðils 2 í Malmö Arena í Malmö í Svíþjóð í dag.
Um fyrsta sigur Slóveníu í milliriðlinum var að ræða og fóru Slóvenar upp fyrir Ísland með sigrinum. Slóvenía er í öðru sæti með fjögur stig eins og topplið Svíþjóðar. Ísland er í þriðja sæti með tvö stig og Ungverjaland er í fimmta sæti með eitt.
Slóvenía mætir næst lærisveinum Dags Sigurðssonar í Króatíu á þriðjudag og Ungverjaland mætir Svíþjóð síðar sama kvöl.
Leikur dagsins var jafn og spennandi en Ungverjar voru tveimur mörkum yfir, 15:17, að fyrri hálfleik loknum.
Slóvenar náðu fljótt stjórninni í síðari hálfleik, komust allnokkrum sinnum þremur mörkum yfir og unnu að lokum þriggja marka sigur.
Blaz Janc átti stórleik fyrir Slóveníu er hann skoraði tíu mörk. Bence Imre var markahæstur hjá Ungverjalandi með átta mörk.
Markvarsla var lítil sem engin hjá báðum liðum.

