„Þetta er gleðistund. Það er stutt á milli í þessu. Það eru búnar að vera alls konar tilfinningar í þessu síðasta sólarhringinn, úr vonbrigðum í mikla gleði. Þetta er klárlega ánægjustund,“ sagði Haukur Þrastarson í samtali við handbolta.is eftir að Ísland tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins með stórsigri á Slóveníu í Malmö í dag.
Ísland gerði svekkjandi jafntefli við Sviss í gær og virtist þá vonin um sæti í undanúrslitum úti. Jafntefli Ungverja gegn Svíum í gærkvöldi var svo vatn á myllu Íslendinga.
Ísland í undanúrslit með stórkostlegum sigri á Slóveníu
„Ég ætla ekki að ljúga því að það var þungt yfir þessu eftir leikinn okkar í gær og þá frammistöðu. En engu að síður hefðum við þurft að vera klárir í dag hvort eð er.
Auðvitað létti töluvert yfir hópnum yfir úrslitum gærkvöldsins sem þýddi að við fengum okkar tækifæri og við grípum það í dag. Það var vel gert,“ sagði Haukur um síðastliðinn sólarhring.
Fannst við vera með þá
Ísland var með yfirhöndina allan leikinn en keyrði yfir Slóvena í síðari hálfleik.
„Við erum að spila vel allan leikinn finnst mér. Við erum að fara með dauðafæri, erum svolítið mikið út af, fá á okkur víti og svona aðeins á eftir þeim varnarlega í fyrri hálfleik en mér fannst við vera með þá þannig lagað.
Þó svo að leikurinn væri jafn var tilfinningin sú að ef við myndum laga þetta myndum við sigla fram úr, sem við svo og gerðum,“ sagði hann.
Þá er áfanganum náð?
„Já, þessu skrefi. Við gleðjumst yfir því núna í kvöld og svo er bara áfram gakk,“ sagði Haukur Þrastarson að lokum í samtali við handbolta.is.


