Ekkert verður hægt að bjóða upp á hópferðir á undanúrslita- og úrslitaleiki Evrópumóts karla í handknattleik í Herning í Danmörku um helgina vegna skorts á miðum á leikina. Uppselt er fyrir nokkru síðan, eftir því sem fram kemur í tilkynningu Handknattleikssambands Íslands í dag.
Miðaleysi gerir HSÍ og Icelandair ókleift að skipuleggja hópferðir að þessu sinni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá miða frá mótshöldurum hefur það ekki gengið eftir, þar sem löngu er uppselt á úrslitahelgina. Ekki er heldur hægt að nálgast staka miða hjá HSÍ.
„HSÍ hvetur þjóðina til að safnast saman fyrir leikina, senda strákunum okkar sterka strauma til Herning og mynda góða stemningu heima fyrir meðan á leikjunum stendur,“ segir í tilkynningu HSÍ í dag.



