Íslenska landsliðið í handknattleik karla leikur í kvöld í þriðja sinn í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik. Að þessu sinni verður leikið við Dani í Herning en fyrri undanúrslitaleikir voru við Svía og Frakka. Hrein tilviljun ræður því að í dag eru nákvæmlega 16 ár frá síðasta undanúrslitaleik Íslands á EM karla, 30. janúar 2010, sem var laugardagur. Mótið fór þá fram í Austurríki og Guðmundur Þórður Guðmundsson var landsliðsþjálfari.
Fyrsta tapið
Eftir þrjá sigurleiki og þrjú jafntefli hafði íslenska landsliðið ekki tapað leik þegar það mætti Frökkum í undanúrslitum í Vínarborg. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Frakkar sterkari í síðari hálfleik og unnu með átta marka mun, 36:28.
Fyrsta EM Björgvins
Björgvin Páll Gústavsson var þá að taka þátt í EM í fyrsta sinn með landsliðinu. Hann er enn annar markvörður landsliðsins á EM 16 árum síðar.

10 mörk frá þjálfurunum
Arnór Atlason aðstoðarþjálfari landsliðsins og Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari tóku þátt í undanúrslitaleiknum. Þeir skoruðu fimm mörk hvor en markahæstur var Aron Pálmarsson með sex mörk.
Háspennuleikur
Daginn eftir vann íslenska landsliðið Pólverja í bronsleiknum, 29:26, í sannkölluðum háspennuleik sem verður ævinlega minnst fyrir ævintýralegan varnarleik Alexanders Peterssonar.

Ísinn brotinn 2002
Ísinn var brotinn með Evrópumótinu 2002 sem haldið var í Svíþjóð. Þá komst Ísland í fyrsta sinn í undanúrslit á EM. Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrði íslenska landsliðinu þá í fyrsta sinn á stórmóti. Liðið lék frábærlega í riðlakeppninni í Skövde og síðar í milliriðlakeppninni sem leikin var í Västerås. Sóknarleikurinn var skemmtilegur, vel út útfærð hraðaupphlaup og „hröð miðja“ kom andstæðingum í opna skjöldu.
Ofurálag og mistök
Þegar kom að undanúrslitum í Globenhöllinni í Stokkhólmi hafði ofurálag mótsins sett mark sitt á íslenska landsliðið sem leikið hafði sex leiki á sjö dögum, riðlakeppni 25., 26. og 27. janúar og milliriðla 29., 30. og 31. janúar. Leikmenn voru komnir að fótum fram. Nokkrir þeirra voru meiddir og gátu vart leikið með í undanúrslitum. Til að gera illt verra hafði HSÍ ekki kynnt sér til hlítar reglur um skiptingar á leikmönnum inn úr hópnum sem varð til þess að annar af tveimur varamönnum sem hægt var að kalla á mátti ekki taka þátt í mótinu.
Á þeim tíma máttu 14 leikmenn taka þátt í hverjum leik, ekki 16 eins og í dag. Þar að auki mátti hafa tvo leikmenn til reiðu, sem hægt var að skipta inn í hópinn ákveðnum reglum sem þóttu ekki skýrar. Alltént vöfðust reglurnar svo fyrir stjórnendum landsliðsins að 16-maðurinn, Sigurður Bjarnason, fékk aldrei leikheimild á mótinu.
Töpuðu lemstraðir
Þegar á hólminn var komið í undanúrslitum 2. febrúar 2002 í Globen var Patrekur Jóhannesson nánast úr leik vegna meiðsla og margir orðnir mjög lemstraðir eins og t.d. Ólafur Stefánsson. Einar Örn Jónsson hafði leikið allar mínútur íslenska landsliðsins í mótinu, svo dæmi sé tekið.
Undanúrslitaleikurinn í Globen gegn Svíum tapaðist með 11 marka mun, 33:22, og því miður átti mjög lemstrað íslenskt landslið með 13 leikmenn lítið erindi í Dani í bronsleiknum sunnudaginn 3. febrúar 2002 og tapaði með sjö marka mun, 29:22.
Ísinn hafði hins vegar brotið ísinn, leiðin rudd m.a. fyrir leikmenn íslenska landsliðsins 24 árum síðar.
Leikmenn íslenska landsliðsins á EM 2002 voru: Bjarni Frostason (markvörður), Guðmundur Hrafkelsson (markvörður), Aron Kristjánsson, Dagur Sigurðsson, Einar Örn Jónsson, Guðjón Valur Sigursson, Gunnar Berg Viktorsson, Gústaf Bjarnason, Halldór Ingólfsson, Ólafur Stefánsson, Patrekur Jóhannesson, Ragnar Óskarsson, Róbert Sighvatsson, Rúnar Sigtryggsson, Sigfús Sigurðsson, Sigurður Bjarnason (fékk ekki leikheimild).
Undanúrslitaleikur Íslands og Danmerkur í kvöld hefst klukkan 19.30.



