Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins, kvaðst ákaflega stoltur af því að hafa stýrt liðinu í úrslitaleik Evrópumótsins eftir að liðið vann 31:28 sigur á lærisveinum Dags Sigurðssonar í Króatíu í Jyske Bank Boxen í Herning í Danmörku í kvöld. Sigurinn var síst of stór.
„Við hefðum svo sannarlega getað unnið með meiri mun. En þegar allt kemur til alls er ég afskaplega stoltur,“ sagði Alfreð í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ARD.
Alfreð skákaði Degi og Þjóðverjar í úrslit
Þýskaland var komið sjö mörkum yfir snemma í síðari hálfleik þar sem allt gekk upp; sóknin var skilvirk, vörnin var geysilega öflug og Andreas Wolff varði vel í markinu.
Alfreð var sérlega ánægður með varnarleikinn og nefndi sérstaklega þegar línu- og varnarmaðurinn ungi Justus Fischer gerði sér lítið fyrir og varði þrjú skot Króata í einni og sömu sókninni.
„Ég held að það sé mótsmet. Fischer varði þrjá bolta í einni sókn. Á heildina litið var þetta ótrúleg varnarframmistaða. Þeir lokuðu öllum sendingarleiðum,“ sagði íslenski þjálfarinn ánægður.



