Meistaradeild kvenna fór aftur af stað eftir tveggja vikna landsliðshlé og var fjórða umferðin spiluð um helgina. Í A-riðli var boðið uppá sannkallaðan naglbít þegar að FTC og Esbjerg áttust við þar sem að liðin skiptust á að hafa forystu en leiknum lauk með jafntefli 31-31. Ungverska liðið er enn taplaust eftir fjórar umferðir.
Franska liðið Brest fór nokkuð auðveldlega með Podravka á heimavelli og vann með 13 marka mun, 35-22. Ófarir Buducnost héldu áfram þegar að það tapað fyrir Rostov, 25-19, á heimavelli og hefur nú tapað öllum fjórum leikjum sínum. Lokaleikur riðilsins var svo leikur Dortmund og CSM þar sem gestirnir fóru með sigur af hólmi, 25-22, og fyrsta tap þýska liðsins á þessari leiktíð því staðreynd.
Í B-riðli tóku ríkjandi meistarar í Vipers á móti nýliðunum Kastamonu frá Tyrklandi þar sem að þær norsku áttu nokkuð auðveldan dag og unnu 39-25. Rússneska liðið CSKA tók á móti Sävehof þar sem að heimakonur unnu nauman sigur, 29-28, þar sem að markmenn liðanna fóru á kostum.
Í Danmörku tóku Odense á móti ungverska liðinu Györ þar sem að gestirnir unnu auðveldan sigur, 31-26, og þær eru óðum að ná upp fyrri styrk og hreinlega vandséð hvaða lið getur stöðvað ungverska liðið. Krim og Metz buðu svo uppá háspennu í leik liðanna í Slóveníu þar sem að Metz hafði betur, 29-28, eftir að Louise Burgaard skoraði skoraði sigurmark franska liðsins á lokasekúndum leiksins.
Úrslit dagsins
A-riðill
FTC 31-31 Esbjerg (16-16)
- Angela Malestein vinstri hornamaður FTC og Henny Reistad vinstri skytta Esbjerg skoruðu báðar 10 mörk í leiknum og voru markahæstu leikmenn vallarins.
- Angela Malestein var svo valin leikmaður leiksins.
- Liðin skiptust alls sex sinnum á að hafa forystu í leiknum og þar á meðal komst danska liðið í 31-29 forystu og allt útlit fyrir sigur þeirra en síðustu fimm mínúturnar voru þeim erfiðar þar sem þeim tókst ekki að skora.
- FTC hefur ekki tapað í fyrstu fjórum leikjum sínum á þessari leiktíð en það er í fyrsta skipti síðan á leiktíðinni 2016/17 sem þeim tekst það.
- Þrátt fyrir að átta af níu útileikmönnum Esbjerg hafi tekist að skora í leiknum hafði liðið ekki nægilega mikla breidd undir lok leiksins þar sem þeim tókst ekki að skora síðustu 5 mínúturnar.
Brest 35-22 Podravka (17-9)
- Þetta var þriðji tapleikur Podravka í röð í Meistaradeildinni og eru þær í sjöunda sæti riðilsins.
- Góð byrjun Brest lagði grunninn að sigri þeirra í þessum leik en þær komust snemma í 7-2 forystu.
- Kalidiatou Niakate skoraði 1.500 markið fyrir franska liðið í Evrópukeppnum þegar hún skoraði tuttuguasta og fyrsta mark liðsins í leiknum.
- Pauletta Foppa línumaður Brest var markahæst í leiknum með sjö mörk
- Þetta er stærsti sigur Brest í Meistaradeildinni en fyrra met var 37-24 sigur á rúmenska liðinu Valcea í nóvember 2019.
Buducnost 19-25 Rostov-Don (10-14)
- Svartfellska liðið hefur átt sína verstu byrjun í Meistaradeildinni á þessari leiktíð frá tímabilinu 2006/7.
- Það tók rússneska liðið 17 mínútur að ná forystunni í þessum leik þegar að þær komust í 8-7 með þremur mörkum í röð frá línumanninum Önnu Lagerquist.
- Rostov endaði fyrri hálfleikinn af miklum krafti með góðum 8-3 kafla og fóru með fjögurra marka forystu inní hálfleikinn 14-10.
- Enn á ný sýndi rússneska liðið frábæran varnarleik en liðið hefur aðeins fengið á sig 22,5 mark að meðaltali á þessari leiktíð.
- Buducnost er enn án sigurs í riðlinum og það stefnir í að þær komist ekki upp úr riðlakeppninni en það yrði þá í fyrsta sinn síðan leiktíðina 2009/10.
Dortmund 22-25 CSM Búkaresti (11-12)
- Dortmund hefur ekki skorað jafn fá mörk í fyrri hálfleik frá því að þær spiluðu gegn Györ á síðustu leiktíð.
- 22 mörk fengin á sig er það lægsta sem CSM hefur fengið á sig frá því í október 2020 þegar að FTC skoraði aðeins 19 mörk gegn þeim.
- Yara Ten Holte, markvörður Dortmund, reyndi hvað hún gat að tryggja þýska liðinu sigur í þessum leik en hún varði 17 skot eða um 41% markvörslu.
- Alina Grijseels skytta þýska liðsins skoraði fimm mörk í þessum leik og hefur nú skorað alls 34 mörk í Meistaradeildinni.
- Þýska liðinu mistókst að bæta félagsmet sitt en besta sigurhrina þeirra til þessa eru þrír sigurleikir í röð.
B-riðill
Vipers 39-25 Kastamonu (20-11)
- Vipers unnu sinn annan sigur í Meistaradeildinni og aftur á heimavelli. Kastamonu er enn án stiga í riðlinum.
- Eftir erfiða byrjun hjá norska liðinu í leiknum náðu þær góðum 6-0 kafla og komust í fimm marka forystu 9-4 á fjórtándu mínútu.
- Norska liðið náði 10 marka forystu snemma í seinni hálfleik þegar að Marketa Jerabkova kom þeim í 21-11.
- Tyrkneska liðið var án besta leikmanns liðsins en Jovanka Radicevic ferðaðist ekki með liðinu til Noregs vegna fjölskyldu ástæðna.
- Katrine Lunde markvörður Vipers varði 12 skot í leiknum eða um 39% skota sem hún fékk á sig.
- 14 marka sigur Vipers og 39 mörk skoruð er bæði félagsmet hjá Vipers í Meistaradeildinni. Þeim hefur aldrei áður tekist að vinna með meira en tíu mörkum og höfðu mest náð að skora 38 mörk.
CSKA 29-28 Sävehof (14-11)
- Rússneska náði að komast í forystu í fyrsta sinn á sautjándu mínútu þegar þær komust í 7-6.
- CSKA leiddi í hálfleik með þremur mörkum en leikmenn sænska liðsins neituðu að gefast upp og um miðjan seinni hálfleik náðu þær að jafna 21-21.
- Þegar að 2 mínútur voru eftir af leiknum voru heimakonur með þriggja marka forystu 29-26.
- Jamina Roberts leikmaður Savehof skoraði sex af átta mörkum sínum í seinni hálfleik en hún er nú markahæsti leikmaðurinn í Meistaradeildinni með 33 mörk.
- Karina Sabirova og Ekaterina Ilina voru markahæstar í liði CSKA með 6 mörk hvor.
- Markmenn liðanna áttu virkilega góðan dag en Polina Kaplina markvörður CSKA varði 17 skot eða 38% og Wilma Kroon Andersson markvörður Sävehof varði 16 skot.
Odense 26-31 Györ (11-16)
- Danska liðið náði aðeins einu sinni að vera í forystu í leiknum þegar að þær komust í 2-1 á sjöttu mínútu.
- Eftir góðan 7-3 kafla hjá heimakonum náðu þær að jafna 11-11 en ungverska liðið svaraði því áhlaupi með fimm mörkum í röð og voru 16-11 yfir í hálfleik.
- Odense á enn eftir að sigra á heimavelli á þessu tímabili en þær hafa hins vegar unnið báða útileiki sína til þessa.
- Dione Houser var markahæst í danska liðinu með 7 mörk.
- Nadine Schatzl og Ryu Eun Hee skoruðu sex mörk hvor fyrir Györ og Silje Solberg varði níu skot í markinu.
Krim 28-29 Metz (17-15)
- Góð markvarsla hjá Hatadou Sako markverði Metz á upphafs mínútum leiksins gerði það að verkum að gestirnir komust í 7-6 forystu eftir 10 mínútna leik.
- Það voru hins vegar þrjú mörk í röð frá Barböru Arenhart, markverði Krim sem hjálpaði heimakonum að snúa leiknum sér í vil.
- Staðan var jöfn níu sinnum í seinni hálfleik þar til að Louise Burgaard skoraði sigurmarkið á lokasekúndunni.
- Metz eru enn ósigraðar í þremur leikjum í röð og þær eiga einn leik inni, Krim er hins vegar aðeins með 2 stig og eru í sjötta sæti riðilsins.