ÍBV vann verðskuldaðan sigur, 20-26 gegn gríska liðinu AEP Panorama í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í kvöld.
Gríska liðið lék langar sóknir og virtist ekki kæra sig um mikinn hraða. ÍBV-liðið vildi hinsvegar það gagnstæða. Jafnt var á tölum í byrjun leiks, 4-4 og 7-7. ÍBV tók leikhlé í stöðunni 7-7. Eftir leikhléið tók ÍBV völdin í leiknum og þær grísku náðu ekki að halda í við þær. Lina Cardell fór meidd af leikvelli á 18. mínútu fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi 15-9 fyrir ÍBV.
ÍBV var með yfirburði í seinni hálfleik og náði eftir 10 mínútna leik 11 marka mun. Staðan var 16-26 þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Þá vöknuðu þær grísku og söxuðu á forskotið, án þess að Eyjastúlkur næðu að svara.
Þetta var fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik.
Seinni leikurinn verður á morgunn kl. 13 í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Spennandi leikur framundan og Eyjakonur eiga góða möguleika að fara áfram í 16 liða úrslit Evrópubikarkeppninnar, miðað við gang leiksins í kvöld.
Mörk ÍBV: Harpa Valey Gylfadóttir 8, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 6, Marija Jovanovic 3/2, Sunna Jónsdóttir 3, Aníta Björk Valgeirsdóttir 2, Ingibjörg Olsen 2, Lina Cardell 1 og Þóra Björg Stefánsdóttir 1.
Marta Wawrzynkowska varði 8 skot í marki ÍBV.
Mörk AEP Panorama: Lamprini Karaveli 4, Agni Papdopoulou 4, Zoi Amanatidou 3, Erika Zeneli 3, Georgia Koulouri 2/1, Christina Emmanouilidou 2, Gesthimani Papdopoulou 1, Eleni Prokopidou 1
Soumela Koutsimani varði 9 skot í marki Panorama.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.