Heimir Örn Árnason hefur verið munstraður inn í þjálfarateymi karlaliðs KA í handknattleik. Hann mun starfa með Jónatan Þór Magnússyni og Sverre Andreas Jakobssyni sem hafa stýrt KA-liðinu um nokkurra ára skeið.
KA greindi frá þessu síðdegis í dag. Heimir Örn er öllum hnútum kunnugur hjá liðinu en hann hefur bæði þjálfað hjá KA og leikið með liði félagsins.
Heimir Örn hefur verið einn af betri dómurum í Olísdeildunum undanfarin misseri. Hann leggur frá sér dómaraflautuna og búninginn á meðan hann verður í þjálfarateymi KA-liðsins.
KA liðið hefur átt erfitt uppdráttar á keppninstímabilinu og er nú í 10. sæti af 12 liðum Olísdeildar með sex stig að loknum 10 leikjum. Næsti leikur KA verður á móti Gróttu í KA-heimilinu á sunnudaginn. Grótta er stigi fyrir ofan KA og á auk þess leik til góða.