- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kría brotlenti á Hlíðarenda

Ungmennalið Vals heldur áfram að gera það gott í Grill 66-deildinni. Mynd/Valur
- Auglýsing -

Eftir sigur í tveimur fyrstu leikjum sínum í Grill 66-deildinni í handknattleik karla þá brotlentu leikmenn Kríu á Hlíðarenda í dag þegar þeir sóttu ungmennalið Vals heim í Origohöllinna.

Piltarnir í Valsliðinu voru mikið sterkari nánast frá upphafi til enda leiksins og náðu þeir mest sjö marka forskoti í síðari hálfleik, 27:20. Staðan var 14:11 að loknum fyrri hálfleik.

Leikmenn Kríu voru afar mistækir í sóknarleik sínum, ekki síst í síðari hálfleik. Sendingar rötuðu oft og tíðum illa milli samherja auk þess sem góð færi fóru óþarflega oft í súginn. Þá var markvarslan slök í síðari hálfleik þótt heldur skánaði hún þegar á leið og Arnar Þór Ólafsson leysti Sigurð Ingiberg Ólafsson af en Sigurður náði sér lítt á strik á sínum gamla heimavelli. Honum var nú nokkur vorkunn í að vörn Kríu var ekki upp á sitt besta.

Kristján Orri Jóhannsson var yfirburðamaður hjá Kríu eins og stundum áður. Hann skoraði 10 mörk og lék í skyttustðunni hægra megin.

Ungu mennirnir í Valsliðinu léku skemmtilega. Þeir voru viljugir og útsjónarsamir og verðskulduðu þennan sigur sem hefði hæglega geta orðið stærri þegar upp var staðið. Benedikt Gunnar Óskarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson voru fremstir meðal jafningja í sóknarleik liðsins. Einar Þorsteinn hefur sérlega góða yfirsýn á leikinn og átti fjölda stoðsendinga. Hann hefur ekki langt að sækja hæfileikana því faðir hans er goðsögnin Ólafur Stefánsson. Jón Sigfús Jónsson var vel með á nótunum í markinu og varði jafnt og þétt allan leikinn.

Hvort lið hefur fjögur stig að loknum þremur leikjum.

Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 9, Einar Þorsteinn Ólafsson 7, Óðinn Ágústsson 6, Þorgeir Arnarsson 3, Jóel Bernburg 2, Andri Finnsson 2, Breki Hrafn Valdimarsson 1, Tómas Sigurðsson 1.

Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 10, Egill Ploder Ottósson 4, Valdimar Sigurðsson 3, Aron Valur Jóhannsson 3, Ásmundur Atlason 2, Daði Gautson 2, Alex Viktor Ragnarsson 1, Gunnar Valur Arason 1, Viktor Orri Þorsteinsson 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -