Þrítugasti og þriðji þáttur af hlaðvarpsþættinum Handboltinn okkar kom út í kvöld. Umsjónarmenn þáttarins að þessu sinni voru þeir Gestur Guðrúnarson, Jói Lange og Arnar Gunnarsson.
Í þættinum fóru þeir félagar yfir leik Íslands og Svartfjallalands þar sem að íslenska liðið mætti af miklum krafti til leiks og gerðu út um leikinn fljótlega. Þeir félagar hrósuðu leikmönnum liðsins fyrir það hvernig þeir mættu til leiks en hins vegar fannst þeim að Guðmundur hefði mátt rúlla meira á liðinu sér í lagi þar sem að forystan var örugg mest allan tímann. Leikmenn eins og Teitur Einarsson og Kristján Kristjánsson hefðu mátt fá meira en fimm mínútur í þessum leik.
Vonbrigði umsjónarmanna með úrslitin úr leik Dana og Frakka leyndu sér ekki en þeir voru sammála því að það er aldrei gott að þurfa treysta á aðra og draumurinn um undanúrslitin hefðu í raun horfið eftir tapið gegn Króötum.
Framundan er leikur við Noreg um 5. sætið á mótinu og það er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir framhaldið í framþróun íslenska liðsins því 5.sætið gefur öruggt sæti á HM sem og möguleika á því að fá sæti í forkeppni Ólympíuleikanna.