- Auglýsing -
Nokkur PCR sýni sem tekin voru við skimun á leikmönnum íslenska landsliðsins í handknattleik karla hafa lent á þvælingi og finnast ekki, eftir því sem næst verður komist. Alltént gengur illa að fá niðurstöður.
Er um að ræða hluta þeirra sem sýna sem tekin voru í hádeginu í gær og í gærkvöld. Leit mun standa yfir. Þetta er sérlega bagalegt þar sem í einhverjum tilfellum er um að ræða sýni frá leikmönnum sem eru í einangrun, eftir því sem handbolti.is kemst næst.
Ekkert jákvætt smit greindist þó í þeim sýnum sem tekin voru í dag við hraðpróf af öllum hópnum, leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum. Það er mikill léttir eftir nánast daglegar fréttir í um viku á einu til þremur smitum á dag sem hafa flest greinst í hraðprófum fyrri hluta dags.
Vonir standa til að einhverjir þeirra sem eru í einangrun losni á morgun fyrir leikinn við Norðmenn um fimmta sætið. Engar staðfestar fregnir fengust af því í dag að leikmaður hafi losnað úr einangrun. Í gær voru Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson og Elvar Örn Jónsson frjálsir eftir viku einangrun. Þá voru átta leikmenn í einangrun auk eins starfsmanns.
- Auglýsing -