- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lögðum allt sem við áttum í leikinn

Leikmenn íslenska landsliðsins fyrir leikinn við Norðmenn á EM í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þetta var svekkjandi að tapa leiknum eftir að hafa barist í 70 mínútur og lagt allt sem við áttum í leikinn,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is strax eftir tap íslenska landsliðsins fyrir Noregi í leiknum um 5. sætið Evrópumeistaramótinu í kvöld. Leikurinn var hnífjafn og æsilega spennandi. Norðmenn skoruðu sigurmarkið á síðustu sekúndu og þurftu dómararnir leiksins að skoða upptöku af markinu áður en þeir felldu sinn dóm, 34:33, fyrir Noreg.


„Við börðumst í allan leikinn en því miður vantaði herslumun upp á þegar allt kemur til alls. Við áttum ekkert eftir á tanknum,” sagði Sigvaldi Björn og undirstrikaði að það hafi tekið sinn toll að vinna upp fjögurra marka forskotið sem Norðmenn voru með í hálfleik og náðu aftur þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. „Við fengum engin auðveld mörk, þurftum að hafa gríðarlega mikið fyrir hverju marki. Berjast hreinlega fyrir hverju marki,“ sagði Sigvaldi.

Hugað að Þráni Orra Jónssyni í leiknum í kvöld en hann meiddist á hné snemma leiks. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Áfall að missa Þráin Orra út

„Það var mjög slæmt að missa út línumanninn, Þráinn Orra Jónsson, út af snemma leiks. Það kom niður á sóknarleiknum og varð til þess að það var mikið hark á skyttunum og miðjumönnunum eftir það. Tók mjög mikið á krafta þeirra,“ bætti Sigvaldi við.


„Á þessu móti höfum við sýnt öllum að við erum með eitt allra besta lið heims. Ég get því lofað að við erum bara rétt að byrja. Nú setjum við hausinn upp og kassann fram og förum í umspilið fyrir HM í vor og síðan á HM á næsta ári,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við handbolta.is í Búdapest í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -