„Þetta var mjög erfiður sigur en þvílíkur karakter og vilji i liðinu. En þetta var ógeðslega gaman,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir sem skoraði fimm mörk í sjö skotum og var markahæst hjá Bayer Leverkusen í kvöld þegar liðið vann Metzinger, 25:23, í hörkuleik á útivelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik.
Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13, en í síðari hálfleik tóku Hildigunnur og félagar stjórnina á leiknum og náðu mest fjögurra marka forskoti.
„Við vorum komnar i góða stöðu á síðustu tíu mínútum leiksins en fengum þá tvisvar sinnum tvær mínútur dæmdar á okkur sem gaf smá spennu í leikinn. En í raun var þetta samt öruggt hjá okkur,“ sagði Hildigunnur sem var sátt við eigin frammistöðu.
„Ég fékk nóg af sendingum i dag. Fiskaði líka tvö víti þannig stelpurnar nýttu vel hvað opnðist vel fyrir mig að þessu sinni,“ sagði Hildigunnur ennfremur og bætti við.
„Sóknarleikurinn hefur ekki verið góður hjá okkur í síðustu tveimur leikjum og því var frammistaðan í kvöld liðinu kærkomin. Það er mikilvægt að við höldum áfram að byggja á þessu sem við gerðum vel kvöld. Við getum tekið fullt með okkur í næsta leik á sunnudaginn,“ sagði Hildigunnur en Leverkusen tekur á móti Bad Wildungen á heimavelli á sunnudag. Bad Wildungen í næsta sæti fyrir neðan Leverkusen en er með jafnmörg stig.
Með sigrinum lyftist Leverkusen upp í 9. sæti deildarinnar af 16 liðum en Metzinger féll niður í 13. sæti.