„Það er alveg ljóst að það verður ekkert leikið á Íslandsmótinu í nóvember. Síðan er spurning hvenær við getum farið að af stað. Með bjartsýni getum við vonað að geta kannski flautað til leiks um miðjan desember. Það er bara mjög erfitt að segja til um hvað gerist,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands við handbolta.is í gær spurður hvernig honum litist á framhaldið varðandi mótamál sambandsins nú þegar æfingar verða óheimilar til 17. nóvember.
„Ég er hóflega bjartsýnn á að hægt verði að byrja að spila um miðjan desember. Það fer svolítið eftir hvenær liðin mega byrja aftur. Við vitum ekkert hvernig staðan verður upp úr miðjum nóvember né hvort æfingar verði leyfðar eftir 17. nóvember og þá hvernig má æfa,“ segir Róbert og bendir á að þegar 17. nóvember rennur upp verða liðnar sex vikur síðan liðum á höfuðborgarsvæðinu var bannað að æfa. Reyndar voru takmarkaðar æfingar leyfðar í síðustu viku og í þessari viku.
Þarf dágóðan tíma til að æfa
„Það þarf dágóðan tíma til æfinga í sal með snertingum, skotum og öllu sem tilheyrir æfingum í handbolta áður farið verður að leika ef ekki á illa að fara varðandi meiðsli leikmanna.“
Róbert segir að eftir helgi verði að fara yfir málið frá öllum hliðum og hvernig verið greitt úr stöðunni varðandi mótahald HSÍ í öllum flokkum og deildum. Til standi að gera áætlanir miðað við ýmsar forsendur. Menn verði líka að spyrja sig ýmissa spurninga og ræða af hreinskilni hvaða kostir kunni að vera fyrir hendi.
Á að leika í Olísdeild karla í janúar?
„Verðum við kannski að leika Íslandsmótið í karlaflokki í janúar meðan HM stendur yfir? Á að lengja keppnistímabilið fram eftir árinu og þá hversu langt fram eftir? Við verðum að sjá hvað verður ofan á,“ sagði Róbert og nefndi ennfremur sem dæmi að til greina gæti komið að leika deildabikarkeppni í janúar svo liðin gætu komið á fullri ferð inn í mótið í febrúar, strax eftir HM.
Þegar mótið verður stokkað upp þarf að koma fyrir að minnsta kosti sex umferðum í kvennaflokki og átta umferðum í karlaflokki sem til stóð að færu fram frá byrjun október og fram í miðjan desember. Róbert Geir segir það liggja í augum uppi að ekki verði einfalt að koma þeim fyrir öðruvísi en að allir verði tilbúnir að nýta hvern möguleika sem gefst til að leika þegar það verður loksins mögulegt á ný.
Forkeppni HM hjá konunum
Til viðbótar stendur fyrir dyrum að kvennalandsliðið taki þátt í forkeppni í desember fyrir heimsmeistaramótið á næsta ári. Það sé verkefni sem skipti gríðarlegu máli. Undirbúningur og þátttaka mun hinsvegar útiloka að leikið verði í Olísdeildinni á meðan.
„Getur landsliðið æft og getur það tekið þátt í forkeppninni. Það á alveg eftir að koma í ljós en víst er að verkefnið er mikilvægt þar sem undir er keppnisréttur á HM í Makedóníu á næsta ári. Til viðbótar bætist að óvissa ríkir um hvort forkeppnin fari fram í desember. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Róbert. Möguleiki mun vera á að forkeppninni verði frestað fram í mars þegar næsta landsliðsvika kvenna er ráðgerð samkvæmt áætlun Handknattleikssambands Evrópu.
„Óvissan er mikil og tímarnir eru vandasamir en hinsvegar erum við að glíma við faraldur sem á engan sinn líkan. Hann bítur jafnt á okkur og aðra,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolta.is.