- Auglýsing -
Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður pólska meistaraliðsins Łomża Vive Kielce hefur ekkert leikið með félagsliði sínu eftir Evrópumeistaramótið í handknattleik. Hásinarmeiðsli sem hafa plagað Sigvalda Björn meira og minna alla leiktíðin versnuðu til muna við álagið sem á honum var á Evrópumótinu. Um er að ræða álagsmeiðsli.
Sigvaldi Björn lék alla átta leiki íslenska landsliðsins frá upphafi til enda að undanskildum 13 mínútum. Alls skoraði Sigvaldi Björn 29 mörk.
Útilokar umspilsleikina
Sigvaldi Björn fór í aðgerð fyrir þremur vikum til að fá bót meina sinna. Hann segir í samtali við Vísi í dag að útilokað sé að hann geti tekið þátt í landsleikjum um keppnisrétt á HM. Sigvaldi bindur vonir við að geta leikið með Łomża Vive Kielce í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í maí. Læknir félagsins er ekki eins bjartsýnn.
„Það er möguleiki en vonandi ekki. Það væri leiðinlegt ef það væri þannig,” segir Sigvaldi Björn við Vísi spurður hvort hann hafi hugsanlega leikið sinn síðasta leik með pólska liðinu en hann skrifaði í vetur undir samning við Kolstad í Noregi sem tekur gildi í sumar.
- Auglýsing -