- Auglýsing -
„Mér fannst við eiga annað stigið skilið í þessum leik. Stelpurnar léku fantagóðan leik, vörnin var góð og markvarslan frábær, ekki síst í fyrri hálfleik,“ sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari Hauka eftir naumt tap fyrir Val, 28:26, í hörkuleik í Olísdeild kvenna í handknattleik í Origohöll Valsara í gær.
„Okkur tókst að leika mjög hratt og fá mörg mörk eftir hraðaupphlaup og seinni bylgju. Með það var ég afar ánægður. Sóknarleikurinn þyngdist hjá okkur undir lokin. Þá fóru leikmenn að sækja of mikið maður gegn manni sem endaði oft í aukaköstum. Takturinn fór aðeins úr sóknarleiknum af þessum sökum.
Ég er hinsvegar sáttur við margt en ósáttur við að fá ekki að minnsta kosti annað stigið,“ sagði Gunnar. „Við vorum í möguleika fram á síðustu stundu. Þegar upp er staðið þá munaði ekki nema nokkrum smáatriðum.“
Haukar þurftu á sigri að halda til þess að endurheimta á ný fjórða sæti Olísdeildar kvenna. ÍBV hefur nú náð því en liðin mætast á laugardaginn á Ásvöllum í næst síðustu umferð Olísdeildar.
„Síðustu tveir leikir okkar í deildinni eru úrslitaleikir um að ná fjórða sætinu og eiga þar með heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fyrst er heimaleikur við ÍBV og síðan útivallarleikur við Stjörnuna í lokaumferðinni. Okkar bíða tveir hörkuleikir,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is í gærkvöld.
- Auglýsing -