- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Maður reynir bara að vera léttur, hugsa jákvætt

Maksim Akbachev, fyrir miðri mynd. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Arnar Daði Arnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu segir það verða sífellt erfiðara að halda úti fjaræfingum meðal leikmanna sinna eftir því sem lengur líður á það tímabil sem æfingar eru óheimilar. Hann hrósar leikmönnum sínum fyrir dugnað fram til þessa en þeir hafa sinnt æfingum vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Eftir viku innannhúss við takmarkaðar æfingar megi segja að menn séu komnir aftur á byrjunarreit.

„Maður tekur einn dag í einu og hátindur dagsins er í kringum 11 leytið þegar smit tölurnar birtast,“ segir Arnar Daði léttur í bragði. Handbolti.is sendi honum eins og fleiri þjálfurum í Olís,- og Grill66-deildunum nokkrar spurningum um stöðuna og óvissa framtíð. Arnar Daði var snöggur að svara og fara svör hans hér að neðan.

Veðrið batnar ekki

Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Það hefur gengið nokkuð vel að mestu leyti. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir sína eljusemi og hafa sinnt æfingunum mjög vel. En það er nokkuð ljóst að það verður erfitt að halda þessu áfram mikið lengur. Veðrið verður ekkert betra með hverjum deginum og því verður erfiðara að stunda útihlaup marga daga vikunnar. Í öllum æfingapásunum hingað til hafa strákarnir verið með hlaupaprógrömm. Við höfum aðeins fækkað hlaupunum í þessari viku og verðum svolítið að spila þetta eftir veðrinu. Við höfum hinsvegar bætt inn styrktaræfingum í beinni á netinu og það hefur reynst vel. Auk þess hef ég reynt að hvetja strákana til að taka spjallið saman eftir þær æfingar og reyna gera eitthvað félagslegt í gegnum gamla góða internetið.“

Nýttist þessi rúma vika innanhúss eitthvað að ráði?

„Ég get ekki sagt til um það. Við reyndum þó að minnsta kosti að gera það besta úr þessu. Við nýttum þá viku til að skjóta mikið og vorum auðvitað að undirbúa það að fara síðan að æfa venjulega inní sal. En nú erum við aftur komnir á byrjunarreit. Það var hinsvegar jákvætt fyrir okkur þjálfarana og strákana að hittast og taka saman æfingar en það var því ansi fúlt þegar hópsmitið á Landakoti kom upp.“

Erfitt að horfa fram í tímann

Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Það þýðir voða lítið að horfa til framtíðar þessa dagana. Maður tekur einn dag í einu og hátindur dagsins er í kringum 11 leytið þegar smit tölurnar birtast. Maður vonar að sjálfsögðu að við getum farið að æfa sem allra allra fyrst og síðan farið að spila í kjölfarið en það þarf margt annað að ganga upp fyrst, eitthvað sem við getum ekki stjórnað sjálfir. Maður reynir bara að vera léttur, hugsa jákvætt, segja nokkra brandara og vona það besta.“

Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Nei það held ég ekki. Ég tel það vonlaust að vera velta fyrir sér framhaldinu.“

Heldur þú að svo geti farið að ekki verði leikið aftur í Olísdeild fyrr en eftir áramótin?

„Langar ekki að hugsa þá hugsun. En að sjálfsögðu gæti það vel gerst en ég vil ekki trúa því.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -